Væta víðast hvar
Gert er ráð fyrir frekar hægri austlægri átt á landinu í dag, búast má við að vindur verði um 8–13 metrar á sekúndu norðaustanlands fram yfir hádegi. Búast má við vætu í öllum landshlutum, en sunnan- og vestanlands rofar heldur til þegar líður á daginn. Líkur eru á að sjáist til sólar, þó að enn megi gera ráð fyrir skúrum síðdegis.
Hiti verður frá 7 stigum á landinu austanverðu og upp í 18 stig um landið vestanvert.
Á morgun stefnir í hægan vind og áframhaldandi skúrir víða, en líkur eru á að þurrt verði að mestu suðaustanlands og á Austfjörðum og jafnvel bjart þegar líður á daginn. Þá mun einnig hlýna austanlands.