Höskuldur Þórhallsson skrifar
Vaðlaheiðargöng eru einhver mikilvægasta samgöngubót landsins. Þau koma til með að auka samkeppnishæfni svæða sem eru köld í atvinnulegu tilliti, tengja saman byggðarlög og auka umferðaröryggi. Í stuttu máli má segja að þjóðhagslegar forsendur verkefnisins séu ríkar og geti orðið enn meiri þegar uppbygging hefst á Bakka við Húsavík. Það er ekki bara Norðurland sem mun hagnast á framkvæmdinni heldur allt landið. Allt sem viðkemur Vaðlaheiðargöngum þolir dagsljósið. Það staðfestir skýrsla IFS greiningar þar sem skýrt kemur fram að allar forsendur um umferð um göngin og umsvif á framkvæmdatíma séu réttar og þarfnist ekki frekari skýringa. Þar kemur líka fram að höfuðstóll láns vegna ganganna verður alltaf greiddur að fullu en óvissa ríkir um endurgreiðslu vaxta. Þá óvissu ber að viðurkenna og auðvelt er að minnka hana með nýrri fjármögnunaráætlun, auknu eigin fé eða auknum tryggingum.
Þrátt fyrir skýrsluna verður að viðurkennast að málið er komið í ógöngur. Mikil andstaða er við uppbygginguna á suðvesturhorni landsins og allir flokkar eru klofnir í afstöðu sinni, fyrir utan Framsóknarflokkinn. Ríkisstjórnin hefur haldið eins illa á málinu og hugsast getur og deilur núverandi og fyrrverandi samgönguráðherra hjálpa ekki til. Eftir á að hyggja voru fullyrðingar Samfylkingarinnar um gjaldfrjáls Vaðlaheiðargöng strax fyrir kosningarnar 2007 forsmekkurinn að því sem koma skyldi. Allir aðrir flokkar voru á þeim tíma sammála um að göngin skyldu gerð í einkaframkvæmd og fjármagnaðar af veggjöldum. Þær forsendur hafa ekki breyst. Verkefni sem er sett í hendurnar á þeim sem leyfa sér slík vinnubrögð verður aldrei annað en torsótt og erfitt viðfangs.
Í fjárlögum fyrir árið 2012 er hvergi getið þeirrar fjárhæðar sem lána á til framkvæmdarinnar. Það er væntanlega gert til að fegra stöðu ríkissjóðs. Þessi vinnubrögð eru ólíðandi og gefur þeim sem finna jarðgagnaframkvæmdinni allt til foráttu færi á að tala um feluleik og blekkingar. Á þeirri framsetningu ber síðasti fjármálaráðherra mesta ábyrgð. Það á allt að vera uppi á borðum hvað viðvíkur lánveitingum ríkisins til Vaðlaheiðargangna ehf., annað skaðar gangnaverkefnið eins og komið hefur á daginn. Það voru líka mikil mistök fyrrverandi samgönguráðherra að taka sæti í stjórn Vaðlaheiðargangna ehf. Ekki nóg með að hann hafi gert sig vanhæfan til að greiða atkvæði um málið á Alþingi heldur var um leið sett óþarfa kjördæmapotsstimpill á málið. Stimpill sem erfitt hefur reynst að má af.
Eins og áður segir staðfestir skýrsla IFS greiningar að forsendur fyrir verkefninu séu réttar og að höfuðstóll láns ríkissjóðs muni skila sér til baka. Óvissan snýst um endurgreiðslu vaxta. Það verður samt að taka inn í myndina að skýrslan snýr eingöngu að fjárhagslegum þáttum framkvæmdarinnar. Þjóðhagslegu forsendurnar voru ekki teknar með í reikninginn. Ekki var heldur tekið tillit til væntanlegra umsvifa í Þingeyjarsýslum sem munu auka umferð í gegnum göngin og auka tekjurnar. Þá er ekki tekið tillit til þess virðisaukaskatts sem rennur í ríkissjóð af framkvæmdakostnaði og af veggjöldunum. Þetta eru allt mikilvægir þættir sem taka verður með í reikninginn þegar lokaákvörðun um lánveitinguna verður tekin á Alþingi.
Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.