Útsvarsmeistari leiðir lista Alþýðufylkingarinnar í NA-kjördæmi
Þorsteinn Bergsson leiðir lista Alþýðufylkingarinnar í Norðausturkjördæmi í Alþingiskosningunum haustið 2016. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Þorsteinn er fæddur 1964, bóndi á Unaósi í Hjaltastaðaþinghá á Fljótsdalshéraði og sjálfstætt starfandi þýðandi. Kona hans er Soffía Ingvarsdóttir framhaldsskólakennari.
„Á vettvangi stjórnmálanna hefur Þorsteinn um árabil talað sem málsvari eindreginnar vinstristefnu, umhverfisstefnu í anda sjálfbærrar þróunar og þess að stjórnvöld búi þegnum þjóðfélagsins, hver sem efnahagur þeirra eða búseta er, frá sinni hendi sem jafnasta aðstöðu,“ segir í tilkynningunni.
Þorsteinn er landsmönnum að góðu kunnur úr spurningaþáttum Ríkissjónvarpsins, Útsvari. Hann hefur í nokkur ár keppt þar fyrir hönd Fljótsdalshéraðs en liðið sigraði í keppninni síðastliðið vor og er því ríkjandi Útsvarsmeistari.
Framboðslisti Alþýðufylkingarinnar í Norðausturkjördæmi verður kynntur síðar í vikunni.