Útlánum hjá Amtsbókasafninu á Akureyri fækkaði árið 2011 um 1%. Alls voru útlánin á liðnu ári 223.811 á móti 233.288 árið 2010. Guðrún Kristín Jónsdóttir deildarstjóri útlánadeildar segir að flest hafi útlánin verið í mars, 20.452 talsins en fæst í desember eða 15.911. Við lánuðum mest út á fimmtudögum en minnst á miðvikudögum ef virkir dagar eru skoðaðir, segir Guðrún Kristín, en um 90% af útlánum safnsins er í formi bóka og tímarita. Gestir árið 2011 voru 117.453 sem er fækkun um 4% frá árinu 2010 en það ár voru gestir safnisins 122.069. Flestir gestir komu á safnið á mánudögum en fæstir á miðvikudögum. Hins vegar komu flestir gestir í húsið þriðjudaginn 26. apríl sem var strax eftir páska en föstudaginn 7. janúar komu fæstir eða 130 manns en þann dag var nánast ófært í bænum vegna færðar og veðurs, segir Guðrún Kristín.
Hún segir að skáldsögur og ævisögur njóti ævinlega vinsælda og norrænir spennusagnahöfundar virðist vera hvað vinsælastir. Öll umfjöllum um bækur í fjölmiðlum virðist skila sér og þá má sérstaklega nefna umfjöllunina um bókina Gamlinginn sem skreið út um gluggann og hvarf en það er sjálfsagt ein af vinsælustu skáldsögunum útgefnum árið 2011, segir deildarstjórinn.