Norðlenska er fyrsta kjötvinnslan á Íslandi sem fær útflutningsleyfi fyrir allar tegundir kjötvara til allra landa Evrópu. Leyfið fékkst í morgun og strax eftir helgi verður sendur þorramatur til Íslendinga á hinum Norðurlöndunum sem bíða þess lostætis með óþreyju, segir á vef fyrirtækisins. Fram að þessu hefur þurft sérstakt leyfi til að senda þorramat utan, þar með talinn súrmatinn góða, og víst að margir kætast vegna þess að nú verður einfaldara að koma þessari vinsælu vöru til ættingja og vina erlendis.
Samevrópsk matvælalöggjöf tók gildi á Íslandi á síðasta ári og strax þá hófst undirbúningur að því að uppfylla öll skilyrði sem sett voru til þess að öðlast umrætt útflutningsleyfi. Gæðakerfi Norðlenska hefur verið mjög öflugt, en aðallega var um að ræða auknar kröfur við flæði í vinnslu sem þurfti að uppfylla. Segja má að þetta sé viðurkenning á því gæðastarfi sem fram hefur farið innan fyrirtækisins. Í því taka allir starfsmenn þátt og eiga hrós skilið fyrir," segir Sigurgeir Höskuldsson, gæða- og þróunarstjóri Norðlenska.
Margir Íslendingar erlendis fagna
Við höfum verið með leyfi til útflutnings á afurðum úr lambakjöti, t.d. hangikjöti, saltkjöti og krydduðu, en getum nú flutt út hvað sem er, hvert sem er. Ég veit að Íslendingar erlendis munu fagna þessari breytingu mjög því nú er hægt að flytja út þorramat, þar með talinn súrmat. Leyfið kom í morgun og fyrstu sendingarnar eru tilbúnar. Þær fara frá okkur strax eftir helgi, segir Sigurgeir. Hann segir gæði hafa verið í öndvegi hjá Norðlenska og fyrirtækið leggi höfuðáherslu á það, hér eftir sem hingað til, að tryggja neytendum góðar vörur. Samstarf hefur verið við Matvælastofnum sem hefur yfirumsjón með matvælaeftirliti á Íslandi. Eftirlitsdýralæknar frá stofnuninni eru viðstaddir alla þá daga sem slátrað er og veita þeir okkur gott aðhald í gæðamálum, segir Sigurgeir Höskuldsson.
Nýir markaðir opnast
Það er klárt mál að með leyfinu eru að opnast nýir markaðir fyrir okkur. Við höfum í aðdraganda þessa fundið fyrir miklum áhuga á okkar vörum til að mynda í Svíþjóð og Færeyjum og má búast við að vörur eins og vínarpylsur, kindabjúgu og fleiri verði í boði hjá viðskiptavinum okkar í þessum löndum á næstunni., segir Ingvar E. Gíslason markaðsstjóri Norðlenska á vef fyrirtækisins.