Úrslitin í íshokkí kvenna hefjast í kvöld

Úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitil kvenna í íshokkí hefst í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld kl. 19:30, en það eru SA Ásynjur og Björninn sem leika til úrslita. Vinna þarf þrjá leiki til þess að landa titlinum. Þessi sömu lið börðust um titilinn í fyrra og þá hafði SA betur, 3-0. Norðanliðið er mun sigurstranglegra fyrir rimmuna en Ásynjur höfðu mikla yfirburði í deildinni í vetur. Liðið vann tíu af tólf leikjum sínum og endaði með 32 stig í efsta sætinu en Björninn hafnaði í þriðja sæti með 15 stig. Í öðru sæti deildarinnar höfnuðu SA Ynjur með 25 stig, en SA liðin sameinast í eitt í úrslitakeppninni.

Óvíst er með þátttöku Bergþóru Bergþórsdóttur hjá liði SA Ásynja í kvöld en hjá Birninum er Hanna Rut Heimisdóttur tæp vegna meiðsla.

Nýjast