Úrskurður um gæsluvarðhald yfir karlmanni staðfest

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra um að karlmaður skuli sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 27. maí næstkomandi.

Maðurinn var handtekinn 28. apríl eftir að hann réðst, ásamt félaga sínum, inn á heimili annars manns. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að þeir hafi verið vopnaðir hnífi og nokkuð greinilega undir áhrifum fíkniefna eða lyfja. 

Maðurinn er einnig grunaður um fleiri brot. Í lok febrúar er talið að hann hafi stolið síma og debet- og kreditkortum úr bifreið. Kreditkortið notaði hann til að panta vörur af netinu. Þá er hann einnig grunaður um að hafa brotist inn í bifreið og stolið þaðan verkfærum. Hluti verkfæranna var merktur eiganda þeirra og fannst við húsleit á heimili hins meinta brotamanns. Þar fundust einnig munir sem talið er að séu þýfi auk fíkniefna. 

Talið var að rökstuddur grunur væri uppi um refsiverða háttsemi af hálfu mannsins. Því var gæsluvarðhaldsúrskurðurinn staðfestur.

Nýjast