Málið var til umfjöllunar á fundi skipulagsnefndar í vikunni og í erindi sem nefndinni barst, kemur fram að á heimavist MA-VMA eru nemendur úr báðum framhaldsskólunum. Þar af eru á bilinu 100 - 150 nemendur úr VMA, mismargir eftir önnum. Allmargir þessara nemenda VMA ganga milli heimavistar og skólans, 2 - 4 ferðir á dag. Í MA eru um það bil 700 nemendur og mikil umferð vegna þeirra á sama tíma og nemendur VMA eru á leið í skólann, bæði gangandi frá heimavist og akandi eftir Þórunnarstræti. Í dagskóla VMA eru 1200 - 1300 nemendur sem þó koma ekki allir í einu í skólann. Með aukinni byggð í Naustahverfi og umferð að og frá Sjúkrahúsinu FSA, skapast mikil umferð á Þórunnarstræti einmitt á þeim tíma þegar nemendur VMA ganga milli heimavistar og VMA. Full ástæða er til að skoðaðar verði gönguleiðir milli heimavistar og VMA og ennfremur gönguleiðir meðfram Þórunnarstræti sunnan við Hrafnagilsstræti. Einnig lagt til að skoðaðar verði úrbætur á Þórunnarstræti við innkeyrslu á bílastæði við heimavist MA-VMA.