Úr vörn í sókn til heilsueflingar

Sigrún Heimisdóttir.
Sigrún Heimisdóttir.

Síðasta árið hefur umræða um heilsu verið áberandi, enda geysar heimsfaraldur. Við höfum verið upptekin af því að fást við þessa vá sem hefur breytt lífi margra og ekki að fullu ljóst hver áhrifin verða þegar fram líða stundir. Samfélagsþreyta er hugtak sem heyrist og við tölum um áður óþekktar aðstæður og fordæmalausa tíma. Samofin heilsuógninni er svo umræðan um heilbrigðiskerfið. Þar hafa hetjur síðasta árs hlaupið í heilmiklum darraðardansi til að bjarga lífum og halda vágestinum niðri eins og hægt er.

Enginn var viðbúinn þessu áhlaupi en á þessum síðustu mánuðum hefur þjóðin öll skellt í sjálfsbjargargír, sett undir sig hausinn varist fimlega og tekist á við þetta!

Á sama tíma heyrast svo fréttir af biðlistum í veldisvexti, fjölgun ofbeldistilkynninga og barnaverndarmála. Álagið hjá hjálparlínunni aldrei verið meira og því miður vísbendingar um fjölgun sjálfsvíga og vaxandi tíðni kvíða og þunglyndis. Einnig eru vísbendingar um að fólk leiti síður eftir læknisþjónustu, sem getur seinkað greiningum og mikilvægum meðferðum banvænna og langvinnra sjúkdóma.

Á síðustu árum hefur fólki fjölgað sem tekst á við  langtímaveikindi vegna langvarandi álags, streitu og örmögnunar. Allskonar skýringar hafa verið nefndar á því, m.a. sú að kreppan fræga 2008 hafi haft þar áhrif. Þegar þjóðir ganga í gegnum álagstíma koma fram neikvæð áhrif á lýðheilsu, en þau birtast oft ekki strax. Því er viðbúið að á næstu misserum og árum munum við sjá enn fleiri þurfa að takast á við langtímaveikindi s.s. örmögnun. Á sama tíma er þjóðin að eldast og krafa um lífsgæði þrátt fyrir veikindi orðin sjálfsögð. Útreikningar hagfræðinga og skýrslur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar áætla að byrði heilbrigðiskerfis verði á næstu árum og áratugum mun meiri vegna langvinnra veikinda en t.d. smitsjúkdóma.

Samkvæmt endurhæfingarstefnu stjórnvalda á að efla þjónustu við langveika og þá sem þurfa endurhæfingu, t.a.m. með því að leggja áherslu á samfellu í meðferð. Í aðgerðaráætlun til næstu fimm ára er lagt til að endurhæfing verði hluti af heilbrigðisþjónustu á öllum stigum. Meginmarkmið er að meðferð taki mið af þörfum notenda með kröfu um gæði, skilvirkni og árangur að leiðarljósi. Einnig að í meðferð sé unnið samhliða með líkamleg- og sálræn einkenni sem og félagslega stöðu.  

Staðan í dag er sú að hérlendis eru nokkrar öflugar endurhæfingarstofnanir sem sinna veikustu einstaklingunum. Einnig hefur efling heilsugæslu verið mikilvæg og þörf. Langir biðlistar eru hinsvegar í opinbera þjónustu og því hefur aðgengi almennings helst verið að sjálfstætt starfandi sérfræðingum. Starfsstofur í heilbrigðisþjónustu hér á Akureyri hafa aðallega verið litlar einingar og algengt að meðferð þar sé afmörkuð við ákveðinn vanda, án samfellu eða samtals á milli fagaðila, þ.e. teymishugsunar.

Sum þjónusta einstaka faghópa hefur verið niðurgreidd en önnur ekki og því hefur verið erfitt að vinna út frá teymishugsun á starfsstofum úti í bæ. Á síðasta ári var samþykkt á Alþingi að greiða niður sálfræðiþjónustu en sú samþykkt er ekki komin í gagnið ennþá. Vonin er þó til staðar og er mikilvægt að þessar úrbætur gangi í gegn, sér í lagi nú þegar viðvörununarmerki blikka með versnandi heilsu, álagsáhrifum og hærri tíðni tilfinningavanda.

Miklu máli skiptir að hafa aðgang að viðeigandi endurhæfingu og úrræðum á réttum tíma og í samræmi við þörf. Það er mikilvægt að allir geti fengið rétta greiningu, meðferð, fræðslu og eftirfylgni. Það þurfa ekki allir þverfaglega þjónustu en þegar horft er til langvarandi veikinda er það mikilvægt. Einnig skiptir máli að einstaklingurinn sjálfur hafi val og sé við stjórnvölinn í sínu bataferli, en njóti stuðnings fagfólks eftir þörfum.

Í ljósi þessa sem hefur verið reifað hér er ánægja að kynna áætlun um aukna starfsemi í heilbrigðisþjónustu á Akureyri. Sálfræði-og heilsumiðstöð sem mun bæði þjónusta þá hópa sem nægir afmörkuð sérhæfð meðferð eða ráðgjöf, sem og þá sem þurfa þverfaglega teymisþjónustu. Markmið að veita vandaða alhliða heilbrigðisráðgjöf, greiningu og meðferð tilfinningavanda, streituraskana og langvinnra veikinda. Horft er til samvinnu við mismunandi fagaðila og stofnanir í bænum til að tryggja samfellu í meðferð eins og hægt er. Tilgangurinn er að hámarka andlega og líkamlega heilsu sem og að efla félagslega stöðu þeirra sem þurfa á að halda og þjónustuna sækja, og starfa þannig í samræmi við áætlanir stjórnvalda. Samningar um niðurgreiðslu þjónustu eru í óvissu en mikilvægt er að geta brugðist við þegar sú gátt opnast og boðið úrræði sem samræmast stefnu stjórnvalda, eru gagnreynd og með skýrum markmiðum.

Mikilvægt er að við tökum höndum saman um að lágmarka neikvæð áhrif álagstíma og heimsfaraldurs á heilsu okkar allra! Ég skora á Sigríði Huld Jónsdóttur, skólameistara VMA, í að skrifar næsta pistil.

-Höfundur er sálfræðingur

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast