Að þessu sinni voru Skagfirðingar gestgjafar og voru um 90 ferðaþjónustuaðilar sem tóku þátt í deginum og skemmtu sér konunglega. Farið var mjög víða og hófst dagurinn í Bátahúsinu hjá Hestasport þar sem gestir voru boðnir velkomnir og gæddu sér á góðgæti frá bakaríinu á Sauðárkróki. Því næst var haldið að Hólum þar sem Guðrún Þóra og aðrir kennarar Hólaskóla héldu mjög áhugaverða kynningu á starfsemi skólans, farið var í leiki og boðið var uppá gómsætan skagfirskan silung í hádegismat. Næsta stopp var listasetrið Bær á Höfðaströnd þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað fyrir listamenn. Tveir ungir piltar, sem kalla sig Fúsaraleg Helgi, tóku nokkur lög á meðan gestir skoðuðu sig um og gæddu sér á veitingum frá Vífilfelli. Áfram var haldið og beinustu leið á Sauðárkrók þar sem Sveitarfélagið Skagafjörður tók á móti þátttakendum með glæsilegum veitingum í Minjasafninu. Eftir mjög ánægjulegt stopp í þesu fallega safni var brunað að Bakkaflöt þar sem gestirnir fengu enn fleiri veitingar í boði ábúenda og kynntu sér starfsemina. Síðasta stopp fyrir kvöldmat var að Varmalæk þar sem gestum var boðið uppá virkilega skemmtilega hestasýningu, bjór frá Kalda og heimabakaðar pönnukökur og kökur. Lagið var tekið í nýrri og glæsilegri reiðhöll áður en haldið var af stað í Varmahlíð. Kvöldmaturinn var haldinn í Héðinsminni í Akrahreppi og var fordrykkur í boði iðnaðarráðuneytisins en maturinn var úr skagfirsku matarkistunni, virkilega glæsilegur matseðill. Kvöldið endaði á hressandi skemmtiatriðum og balli með Geirmundi.
Sérstakar viðurkenningar frá Markaðsskirfstofu ferðamála á Norðurlandi hlutu Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit fyrir áhugaverða nýjung í ferðaþjónustu og Gunnar Árnason leiðsögumaður fyrir áralangt starf í þágu ferðaþjónustunnar. Pétur Rafnsson frá Ferðamálasamtökum Íslands veitti Byggðasafni Skagfirðinga viðurkenningu fyrir faglega uppbyggingu í þágu ferðaþjónustunnar. Þessi dagur heppnaðist í alla staði mjög vel og á næsta ári verður uppskeruhátíðina haldin í Mývatnssveit. Það von Markaðsskrifstofunnar að sem flestir sjái sér fært að mæta að ári og eiga góðan dag í samvistum við aðra ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi, segir í fréttatilkynningu.