Uppskera korns í samræmi við veðurfarið

Kornið í Eyjafirði er mjög misjafnt eftir sumarið. Mynd: Hörður Geirsson.
Kornið í Eyjafirði er mjög misjafnt eftir sumarið. Mynd: Hörður Geirsson.

"Uppskera og útlit kornsins er í samræmi við veðurfar sumarsins," segir Ingvar Björnsson ráðunautur hjá Búgarði um kornuppskeru eftir sumarið. Ingvar segir að Ísland sé á mörkum þess að þar sé hægt að rækta korn, en kornuppskera og þroski fylgi mjög nákvæmlega hitafari vaxtartímans.

"Það voraði snemma og kornsáning var tiltölulega snemma á ferðinni. Margir náðu að sá um mánaðarmótin apríl-maí og vel leit út með kornuppskeruna framan af maímánuði," segir hann. Þá tók við 6 vikna kuldatímabil frá seinni hluta maí og til mánaðamóta júní-júlí og gerði það vonir kornbænda um góða uppskeru að engu. Frostnætur í ágúst og væta seinni hluta þess mánaðar gerðu síðan endnalega útslagið. "Niðurstaðan er sú að kornuppskera í Þingeyjarsýslum er mjög rýr. Líklega er tæplega helmingur kornakra þreskingarhæfur og það korn sem verður þreskt er að miklu leyti illa þroskað og lélegt. Í Eyjafirði er kornið misjafnt. Það er allt frá því að vera nokkuð gott og niður í það að vera óþreskjanlegt í jaðarsveitum," segir Ingvar.

Nýjast