Uppsjávarskipin undirbúin fyrir loðnuvertíð

Eitt skipanna, uppsjávarskipið Sighvatar Bjarnason VE í eigu Vinnslustöðvarinnar er nú í dráttarbrau…
Eitt skipanna, uppsjávarskipið Sighvatar Bjarnason VE í eigu Vinnslustöðvarinnar er nú í dráttarbrautinni þar sem gera á skipið klárt fyrir komandi loðnuvertíð. Mynd: Sveinbjörn Pálsson

„Við höfum fundið fyrir því núna seinnipart árs að útgerðarfyrirtækin eru að undirbúa sig fyrir komandi loðnuvertíð. Það má gera ráð fyrir að flestir vilji nýta sín skip sem mest yfir þennan tíma til að ná í þann kvóta sem áætlaður hefur verið,“ segir Sveinbjörn Pálsson sviðsstjóri skipaþjónustu Slippsins á Akureyri.

Verkefnastaða hjá Slippnum hefur verið góð undanfarið og útséð að hún haldist þannig út árið.

Afhendingartími aðfanga lengri en áður

Sveinbjörn segir bókanir fyrir næsta ár farnar að berast og segir hann að það geti haldist í hendur við þá upplifun manna að afhendingartími á öllum aðföngum sé mun lengri en áður var. Kenna megi kórónuveirunni um það og því enn mikilvægara en áður að skipuleggja verkefni vel og huga snemma að því viðhaldi sem sinna þarf á næstu mánuðum.

Sveinbjörn segir að útgerðir uppsjávarskipa séu nú  í óða önn að undirbúa stóra loðnuvertíð og Slippurinn taki þátt í aðstoða þær við undirbúning skipanna áður en að henni kemur. „Þetta er gríðarleg lyftistöng fyrir útgerðina og alla þá sem þjónusta sjávarútveginn,“ segir hann.

„Orðspor okkar er gott, okkar viðskiptavinir þekkja þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í Slippnum en það er góðu starfsfólki að þakka,“ segir Sveinbjörn spurður um hverju helst megi þakka góða verkefnastöðu á yfirstandandi ári og gott útlit fyrir komandi ár. Hann segir að einnig skipti máli gott aðgengi að nálægum fyrirtækjum sem Slippurinn eigi í samstarfi við og geri að verkum að hægt er að þjónusta viðskiptavinir fljótt og örugglega.

/MÞÞ


Athugasemdir

Nýjast