Viðtökurnar á ævintýrasöngleiknum Pílu Pínu sem Menningarfélag Akureyrar hefur nýlega lokið sýningum á, hafa verið vonum framar. Fullt hús var á öllum sýningunum níu. Hátt í fimm þúsund áhorfendur á öllum aldri hafa því sótt sýninguna.
Sýningin á Pílu Pínu var stór í sniðum hvort sem litið er til lifandi tónlistar eða glæsilegrar umgjarðar, í formi leikmyndar og búninga, að ótöldum frábærum leik og söng. Um 100 manns komu að uppsetningunni m.a. 10 leikarar, 10 manna hljómsveit og barnakór.
Á vef Menningarfélags Akureyrar segir: “Uppsetningin á Pílu pínu var skínandi vitnisburður um samtakamátt Menningarfélags Akureyrar og ber samstarfi Leikfélags Akureyrar, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Menningarhússins Hofs afar gott vitni."
Sýningin hefur fengið mjög góða dóma. Gagnrýnendur hafa verið sammála um að sýningin hafi verið vel heppnuð og metnaðarfull.
Gagnrýnandi Vísis, Sigríður Jónsdóttir, gaf sýningunni fjórar stjörnur af fimm og sagði hana vera hugljúfa og einlæga. Tinna Stefánsdóttir í Sirkustjaldinu sagði m.a. „Á heildina litið er hér á ferð vel heppnuð sýning, sjónrænt sælgæti með boðskap sem á jafnmikið erindi núna og fyrir 40 árum síðan“. /epe.