Uppsagnir hjá landvinnslu Brims á Grenivík

"Það eru mjög slæmar horfur í markaðsmálum fyrir þær vörur sem við höfum framleitt á Grenivík og því grípum við til þessa ráðs," segir Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Brims á Akureyri.  Þrettán starfsmönnum af sextán hjá landvinnslu Brims á Grenivík var sagt upp fyrir helgi.  

Í vinnslunni á Grenivík hafa verið unnar saltaðar afurðir, bæði flattur hefðbundinn saltfiskur og léttsöltuð flök. Þetta kemur fram á mbl.is. Vinnslan á Grenivík á sér langa sögu og hefur oft tekið breytingum. Helstu markaðssvæði afurða sem unnar eru á Grenivík eru í Suður Evrópu en nú eru markaðsaðstæður með þeim hætti að ekki þykir forsvaranlegt að halda vinnslunni áfram. Það er þungt högg fyrir byggðarlag eins og Grenivík þegar rúmur tugur starfa tapast. Á móti kemur hins vegar að Grýtubakkahreppur  á aflaheimildir. Starfsmennirnir þrettán eiga þriggja til sex mánaða uppsagnarfrest og segir Ágúst Torfi á mbl.is, að starfseminni á Grenivík verði haldið áfram til vors. Þeir þrír starfsmenn sem ekki fengu uppsagnarbréf munu halda áfram störfum hjá félaginu og þá væntanlega á Akureyri.

Nýjast