Upppsagnir hjá slökkviliðinu á Akureyri

Fimm starfsmönnum Slökkviliðs Akureyrar var sagt upp störfum um síðustu mánaðarmót og tekur uppsögnin gildi þann 1. desember nk. Stöður fjögurra annarra sem hafa haft starfstöð á vellinum leggjast einnig af. Uppsagnirnar tengjast því að Isavia tekur yfir þá þjónustu sem Slökkvilið Akureyrar hefur haft með höndum á Akureyrarflugvelli, samkvæmt þjónustusamningi við fyrirtækið.  

Þorbjörn Haraldsson slökkviliðsstjóri á Akureyri segir að það sé ákveðinn missir fyrir slökkviliðið að samningurinn við Isavia skyldi ekki hafa verið endurnýjaður. "Þetta er verktakasamningur sem við höfum notið góðs af fyrir heildarstarfssemi slökkviliðsins. En við verðum með öflugt lið hér eftir sem hingað til."

Þorbjörn segir að allt sé gert til þess að milda áhrifin vegna uppsagnanna, m.a. hafi mönnum verið boðið að taka launalaust leyfi í allt að 18 mánuði, þar sem ýmislegt geti breyst á þeim tíma. Einn starfsmaður hafi þegið það og frestar það því uppsögn hjá einum á uppsagnarlista. Þá hafi einir fjórir slökkviliðsmenn sótt um starf hjá Isavia á Akureyrarflugvelli. "Isavia ætlar að ganga frá ráðningum fyrir 15. september og þá ætti að skýrast hvort eitthvað af mínum mönnum fer að vinna þar." Fram til þessa hafa 33 slökkviliðsmenn verið á vöktum en þeir verða 23 eftir 1. desember. Þorbjörn segir að á dagvöktum verði fækkað úr 7 í 5 og á næturvöktum verði einnig fækkað um einn úr 5 í 4.

Slökkviliðið hefur einnig haft með höndum sjúkraflug á landsbyggðinni og sjúkraflutninga á landi. Samningar þar að lútandi eru aðeins til eins árs og það er eitthvað sem Þorbjörn segir að menn vildu sjá breytast og að samið verði til lengri tíma í senn. "Við erum með samning út þetta ár við Sjúkratryggingar varðandi sjúkraflugið en höfum jafnframt vilyrði fyrir því að samið verði við okkur áfram um næsta ár. Það er samt ekkert atvinnuöryggi í því að sitja með verktakasamninga til 12 mánaða í senn. Skömmu eftir að búið er að ganga frá samningi, þarf að setjast niður og gera nýjan samning um næsta ár. Þetta höfum við búið við bæði með sjúkraflugið og sjúkraflutninga á landi. Ég hefði viljað gera samninga um þessi verkefni til þriggja ára, því öll stöðugildin okkar miðast við þetta. Gagnvart sjúkrafluginu erum við með hálft stöðugildi í gangi og gagnvart sjúkraflutningunum erum við með fjögur stöðugildi. Það er bagalegt að ekki sé hægt að gera samninga til lengri tíma, þótt rætt sé um krónur og aura þess á milli. Við þurfum að vera búnir að ganga frá samningum þremur mánuðum fyrir áramót og það tengist m.a. uppsagnarfresti starfsmanna gangi samningar ekki, en samningsaðilar okkar vita oft ekki stöðuna gagnvart fjárveitingum ríkisins fyrr en í október eða nóvember," segir Þorbjörn.

Nýjast