Upplýsingavefur um vistkerfi sjávar í Eyjafirði opnaður
Nýr og öflugur upplýsingavefur um vistkerfi sjávar í Eyjafirði, var opnaður í Háskólanum á Akureyri í dag. Upplýsingagáttin Vistey, www.vistey.is, er ætluð bæði heimamönnum til fræðslu um eigið umhverfi og fyrir ferðamenn sem heimsækja svæðið. Verkefnið er samvinnuverkefni Sjávarútvegsmiðstöðvarinnar við Háskólann á Akureyri og Arctic Portal. Upplýsingagáttin byggir að miklu leyti á ljósmyndum og myndböndum sem Erlendur Bogason kafari hefur tekið.
Hreiðar Þór Valtýsson forstöðumaður sjávarútvegsmiðstöðvarinnar opnaði Vistey og kynnti verkefnið sem hann sagði í stöðugri þróun og að sífellt bættist við efnið á síðunni. Undirbúningsvinna var styrkt af Vaxtasamningi Eyjafjarðar. Hreiðar sagði að tilgangurinn væri að fræða og nefndi hann í því sambandi, fróðleiksfúst heimafólk, ferðamenn, kennara á öllum skólastigum, framhaldsskólanemendur og grunnskólanemendur á efri stigum.