Upplýsingaskilti um sögu Gamla barnaskólans sett niður við húsnæði Saga Capital

Við Saga Capital fjárfestingabanka á Akureyri hafa verið sett niður fimm upplýsingaskilti um sögu Gamla barnaskólans, fyrir framan höfuðstöðvar fyrirtækisins í Hafnarstræti. Forsagan er sú að í kjölfar þess að Saga Capital ákvað að setja höfuðstöðvar sínar niður í Gamla barnaskólanum í Hafnarstrætinu var húsnæðið tekið í gegn og endurnýjað frá grunni.  

Húsið var þá rúmlega 100 ára gamalt, vígt 18. október 1900 og hafði nánast ekkert verið haldið við að innan þó endurbætur hefðu verið gerðar á húsinu að utan. Húsið var svo formlega vígt eftir endurbæturnar þegar Saga Capital hélt opnunarhátíð sína í ágúst 2007. Af því tilefni tók Hörður Geirsson hjá Minjasafninu á Akureyri saman fróðleik og myndir um sögu hússins og setti upp á fimm söguskilti. Þessi skilti voru sýnd á opnunarhátíðinni og Hörður fór með hópa fólks í skoðunarferðir um húsið enda höfðu margir fylgst með endurbótunum og vildu sjá hvernig til hefði tekist. Skiltin voru svo aftur sett upp fyrir aftan húsið síðasta sumar en í ár var ákveðið að breyta til og setja þau niður fyrir framan húsið svo að sem flestir, gestir og gangandi, gætu notið þeirra og fræðst um sögu þessa stórmerkilega húss. Stefnt er að því að hafa skiltin fyrir framan húsið í sumar.

Nýjast