Dagskrain.is sagði frá því í gær að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þingmaður Framsóknarflokks og fyrrverandi forsætisráðherra hafi sagt frá því á fundi með Framsóknarmönnum á Akureyri á laugardag; að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands hefði á fundi þeirra á Bessastöðum 5. apríl s.l. tjáð honum að hann væri tilbúinn með utanþingsstjórn. Í henni yrði Einar K. Guðfinnsson forsætisráherra, og Már Guðmundsson seðlabankastjóri yrði fjármálaráðherra. Einnig hafi verið nefndir til sögunnar Þorsteinn Pálsson og Friðrik Sophusson. Hið rétta er að Sigmundur Davíð hafði þessar upplýsingar ekki frá Ólafi Ragnari sjálfum heldur hefði hann fengið þetta staðfest annars staðar frá.
„Fyrst þegar hann [Sigmundur Davíð] hringdi í Ólaf, þegar Ólafur var enn erlendis og þeir ákváðu að hittast, þá fann hann að það var eitthvað í gangi,- segir hann. Svo fékk hann þetta staðfest einversstaðar, að þetta væri í bígerð, þessi utanþingsstjórn væri bara klár og Ólafur ætlaði bara að setja hana á. Sigmundur nefndi þessi nöfn og að hann hefði fengið staðfest með þessi tvö fyrstu en hin hefði hann bara heyrt og væri ekki með staðfest. Hvaðan hann fékk þetta staðfest allt saman það veit ég ekki,“ segir heimildamaður dagskrárinnar.is. um það sem Sigmundur Davíð sagði á fundinum á Akureyri á laugardag.
Dagskrain.is hafði samband við Jóhannes Þór Skúlason aðstoðarmann Sigmundar Davíðs og leitaði svara við því hvaðan Sigmundur Davíð hefði þessar upplýsingar staðfestar. „Ég hef svo sem engu við þetta að bæta, nema að það var svo sem ýmislegt rætt á þessum fundi. Svona hitt og þetta varðandi þessa atburðarrás alla,“ sagði Jóhannes Þór og bætti við að hann ætti ekki von á að Sigmundur Davíð vilji bæta neinu við þetta. „Ég held að hann ætli ekkert að ræða þetta strax í fjölmiðlum,“ sagði hann. /epe.