Sem kunnugt er hefur Ferðamálastofa hætt öllum stuðningi við rekstur opinberra upplýsingamiðstöðva á landinu og því ákváðu bæjaryfirvöld á Akureyri, í tengslum við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2021, að leggja af rekstur upplýsingamiðstöðvar ferðamanna í Hofi. Ákvörðun Ferðamálastofu vegur þar þungt en einnig er litið til forgangsröðunar verkefna í rekstri bæjarins. Frá þessu greinir Þórgnýr Dýrfjörð framkvæmdastjóri Akureyrarstofu á Facebooksíðunni Ferðaþjónustuaðilar á Akureyri.
Þar segir að Akureyrarbær muni efla mjög upplýsingaþjónustu við ferðamenn á vefsíðunni www.visitakureyri.is og jafnframt verða upplýsingar á prentuðu formi og í tölvum aðgengilegar á Amtsbókasafninu, Listasafninu á Akureyri og Sundlaug Akureyrar. Þessi þjónusta komi þó ekki í staðinn fyrir þá sem veitt hefur verið í Hofi, hún verður mun umfangsminni og einfaldari og ekki verður um neina sölu á þjónustu eða vörum að ræða eins og verið hefur.
Upplýsingamiðstöðinni verður lokað formlega nú í lok janúar.