Uppgangur og fólksfjölgun í Hrísey

Ingólfur Sigfússon í Hrísey.
Ingólfur Sigfússon í Hrísey.

„Hér er allt á uppleið,“ segir Ingólfur Sigfússon formaður hverfisráðs Hríseyjar þegar Vikublaðið sló á þráðinn til hans og forvitnaðist um stöðuna í Hrísey. Mikill uppgangur er nú í eyjunni og fólki að fjölga. Ingólfur segir ánægjulegt að sjá hvernig málin hafa þróast eftir brunann hjá Hrísey Seefood fyrir um ári síðan þegar fiskverkunin, og jafnframt stærsti vinnustaðurinn í Hrísey, eyðilagðist í brunanum. Hrísey Seafood keypti Salthúsið af Byggðastofnun, setti þar upp frystihús og fékk nýlega vinnsluleyfi. Þá hefur annar bátur verið keyptur.

„Við vissum ekkert hvernig málin myndu þróast eftir brunann og það var mikil óvissa. Það skiptir samfélagið gríðarlega miklu máli hafa þessa fiskverkun og því mjög gleðilegt að fyrirtækið hafi ákveðið að láta slag standa og byrja upp á nýtt,“ segir Ingólfur.

Mikið um framkvæmdir

Þá hefur töluvert verið um framkvæmdir í Hrísey undanfarið. Í skýrslu hverfisráðins kemur fram að heitlagað malbik var í fyrsta skipti lagt á götur í Hrísey þegar Austurvegur, Hjallavegur og fleiri minni kaflar voru malbikaðir. Smábátabryggjan var endurnýjuð, margir íbúar voru í framkvæmdum, mörg hús voru máluð og garðar snyrtir. Þá varð fólksfjölgun í eyjunni á haustmánuðum, leikskólinn sem ekki var opnaður að hausti vegna fámennis var opnaður aftur í nóvember og hafa sjö börn verið í leikskólanum í vetur og það áttunda að bætast við nú í vor.

Nemendum fjölgað um níu

Nemendur Hríseyjarskóla sem voru 15 í upphafi skólaárs verða 24 í lok skólaársins. Segir í skýrslu hverfisráðsins að mikilvægt sé að Akureyrarbær styðji við þá þróun og að unnt verði að taka við enn fleiri nemendum í komandi framtíð. Þá segir einnig að í dag sé meiri eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði í Hrísey en framboð sem er ákveðið áhyggjuefni, en þó í raun verkefni sem þarf að leysa. Þá var mikill áhugi á komu til Hríseyjar síðasta sumar sem gefur góð fyrirheit fyrir sumarið í ár. „Allt þetta hefur blásið jákvæðni í samfélagið á ný eftir höggið í fyrravor með brunanum,“ segir Ingólfur. „Þetta hefur þróast á jákvæðan hátt hjá okkur undanfarið ár, sumarið í fyrra var t.d. mjög gott og fólk flykktist hingað á eyjuna. Barnafjölskyldum fjölgaði í haust sem er mjög jákvætt og maður finnur það sjálfur að fólk er almennt mun jákvæðara núna.“

Bjartsýni fyrir sumrinu

Ingólfur bendir einnig á að oft hafi verið erfitt að fá framkvæmdir í Hrísey í gegn hjá bæjaryfirvöldum á Akureyri. „En núna virðumst við ná betur eyrum bæjaryfirvalda sem er mjög mikilvæg,“ segir Ingólfur og bendir á að Hrísey hafi nýverið fengi styrk úr Fjarskiptasjóði með stuðningi frá Akureyrarbæ til að leggja ljósleiðara stofnstreng til Hríseyjar. „Það verður mikil framför og eflir búsetuskilyrði í Hrísey,“ segir Ingólfur. Hann segir að um 110 íbúar hafi verið búsettir í eynni í vetur en þeim fjölgi ávallt yfir sumarið. „Vonandi fáum við svo gott ferðasumar og árið í fyrra hafi opnað augu fyrir fólki um  að hingað sé gott að koma. Við erum allavega bjartsýn enda strax farið að bera á fleira fólki á röltinu,“ segir Ingólfur Sigfússon.

 


Athugasemdir

Nýjast