Uppbyggingarskeið framundan í Þingeyjarsýslu

„Nú er að hefjast samfellt 10 til 15 ára uppbyggingarskeið í Þingeyjarsýslu, það er ánægjulegt að hjólin fara nú að snúast með tilheyrandi atvinnuuppbyggingu á svæðinu,“ segir Kristján L. Möller formaður atvinnuveganefndar Alþingis. Hann kveðst gera ráð fyrir að nú í kringum áramót muni Landsvirkjun sækja um virkjanaleyfi á svæðinu.

Fyrirtækið hafi beint væntanlegum orkukaupendum á það svæði, enda eina svæðið  þar sem til væri orka um þessar mundir.  Gerði Kristján ráð fyrir að innan tíðar yrði byrjað á tveimur virkjunum sem samtals muni gefa um 150 MW. Þá segir hann að iðnaðaruppbygging á Bakka við Húsavík sé að komast á fullt skrið. Tvö fyrirtæki á sviði kísilframleiðslu væru í startholunum, PCC og Thorshil, „og það er mjög gleðilegt,“ segir Kristján. Umræðan á dögunum um tvísköttun á kolefnagjaldi gerði að hans sögn ekki gott, „en sem betur fer tókst okkur að kveða niður þann draug snarlega.“  Málið hafi verið útskýrt á fundum með atvinnuveganefndinni og fjármálaráðherra og hagsmunaaðilum gerð grein fyrir að ekki yrðu um tvísköttun að ræða.

Nýjast