Unnið af fullum krafti að stofnun nýs sparisjóðs á Akureyri

Undirbúningur að stofnun nýs sparisjóðs á Akureyri er í fullum gangi en á vordögum samþykkti stjórn Sparisjóðs Höfðhverfinga að auka stofnfé sjóðsins um allt að 500 milljónir króna til að undirbyggja útvíkkun á starfseminni með opnun sparisjóðs á Akureyri. Þetta var gert á grundvelli viljayfirlýsingar á milli KEA, Akureyrarbæjar og Sænes um að kaupa stofnfé í fyrirhugaðri stofnfjáraukningu.  

Jóhann Ingólfsson formaður stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga segir að enn sé við það miðað að nýi sparisjóðurinn taki til starfa á Akureyri í haust, "og það styttist í haustið." Sparisjóðurinn verður til húsa að Glerárgötu 36 og segir Jóhann að verið sé að skoða ýmislegt varðandi innréttingar, starfsmannamál og fleira. "Við erum í þessu undirbúningsferli og það fer nú að sjá fyrir endan á því. Áræðanleikakönnunin er búin og hún kom vel út. Það kom heldur ekkert nýtt fram þar og niðurstaðan hefur verið kynnt öllum hlutaðeigandi aðilum. Við erum að ljúka við að uppfylla öll þau skilyrði sem þarf fyrir stofnfjáraukinguna."

Jóhann segir að fréttir af málefnum annarra sparisjóða, m.a. Sparisjóðs Svarfdæla, hafi aðeins verið að trufla undirbúninginn. "Það er samt ekkert sem tefur okkur í því sem við erum að gera  og við höfum sagt að við séum ekki tilbúnir að skoða neitt með formlegum hætti fyrr en við værum búnir að koma nýja sparisjóðnum á Akureyri í gang. En það er þrýstingur á að skoða þessi mál," segir Jóhann.

KEA á nú 35% stofnfjár í Sparisjóði Höfðhverfinga og hyggst auka eign sína í tæplega 50%.  Sænes hf., sem er hlutafélag í eigu Grýtubakkahrepps, mun tvöfalda eignarhlut sinn eða í 20% og Akureyrarbær mun einnig eignast allt að 20% af stofnfé í þessari aukningu. Jóhann segir að Sænes og Akureyrarbær þurfi leyfi Fjármálaeftirlitsins til að eiga meira en 10% í fjármálafyrirtæki en það eigi ekki að verða neinn þröskuldur í þessu ferli.

Markmiðið er að bjóða almenningi kaup á stofnfé í sjóðnum og Akureyrarbær hyggst selja sitt stofnfé til almennings þegar uppbygging starfseminnar á Akureyri er komin vel á veg. Fjárhagslegur styrkur sjóðsins er mikill en svokallað cad-eiginfjárhlutfall er nú um 14%.  Eftir stofnfjáraukninguna og opnun sparisjóðs á Akureyri verður fjárhagsstaða sjóðsins afar sterk og sú besta meðal íslenskra fjármálafyrirtækja. Enginn sparisjóður er nú starfandi á Akureyri en þeir voru á árum áður tveir sem sameinuðust í Sparisjóð Norðlendinga sem síðar rann inn í BYR hf.  

Nýjast