Unnið að sölu á ríflega þriðjungshlut í ÍV

Miðbærinn á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.
Miðbærinn á Akureyri. Mynd: Hörður Geirsson.

Eigendur að 36% hlut í Íslenskum verðbréfum hf. hafa falið Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hf. að annast formlegt ferli sem lýtur að mögulegri sölu á eignarhlut sínum í félaginu. Þessi hlutur er í dag í eigu Íslandsbanka hf., Hildu hf. og Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis. Samkvæmt upplýsingum Gunnars Kristins Sigurðssonar, sérfræðings á samskiptasviði Íslandsbanka, er ekki búið að ganga frá sölunni á þessum eignarhlut. “Hátt í 10 aðilar sendu inn tilboð í fyrsta fasa söluferlisins. Seljendur hlutarins tóku upp viðræður við þann aðila sem þótti eiga hagstæðasta tilboðið og þær viðræður standa enn yfir. Stefnt er að því að ljúka viðræðunum á næstu vikum,” segir Gunnar.

Íslensk verðbréf hf. er sjálfstætt starfandi eignastýringarfyrirtæki sem hefur þjónað einstaklingum og fagfjárfestum frá 1987. Í lok árs 2011 námu eignir í stýringu tæplega 130 milljörðum króna. Íslensk verðbréf eru með höfuðstöðvar sínar á Akureyri og hjá félaginu starfa rúmlega 20 starfsmenn sem sinna fjölþættri þjónustu við viðskiptavini félagsins.

 

Nýjast