15. apríl, 2008 - 16:34
Fréttir
Fyrrverandi nemendur og síðar lykilstarfsmenn Gagnfræðaskólans á Akureyri, GA, eru að skrifa sögu skólans og gera þeir sér vonir um
að þeirri vinnu ljúki síðar á þessu ári.
Þetta eru þeir Baldvin Bjarnason, sem starfaði í skólanum í 26 ár, þar af skólastjóri í 8 ár og síðasti
skólastjóri GA, Bernharð Haraldsson, sem var kennari í 18 ár og þar af skólastjóri í eitt ár og Magnús Aðalbjörnsson
sem starfaði í 34 ár, yfirkennari síðustu 16 árin og sá síðasti í sögu skólans. Þessum mönnum til halds og trausts
er svo Sverrir Pálsson, sem starfaði í GA í rúma fjóra áratugi, síðasta aldarfjórðunginn sem skólastjóri.
Gagnfræðaskóli Akureyrar starfaði í 67 ár. Fyrsti skólastjóri var Sigfús Halldórs frá Höfnum. Verkefnið hefur notið
stuðnings að sögn Bernharðs en bæði Akureyrarbær og KEA hafa stutt verkefnið. Vinnuaðstöðu hafa þeir haft á
Héraðsskjalasafninu og Amtsbókasafninu. "Við félagarnir vorum ekkert að bíða eftir því að einhver stofnaði ritnefndina fyrir okkur,
heldur gerðum það sjálfir. Ég er formaður og sé um mestan hluta textans, Magnús er myndaritstjóri og heldur utan um myndirnar og Baldvin
sér m.a. um nemendaskrár og fleira. Hann er sá eini okkar, sem kann margföldunartöfluna almennilega og kenndi stærðfræði í áratugi.
Þegar við sjáum fyrir endann á verkinu ætlum við að senda fyrrum nemendum, gagnfræðingum og landsprófsfólki, kennurum, velunnurum
skólans og fleirum huggulegt bréf og bjóða þeim að gerast þátttakendur með því að kaupa ritið."
Þegar ritnefndin tók til starfa var farið að skoða þau gögn sem varðveist höfðu og þá kom í ljós, að það
vantaði talsvert af gögnum, sem voru til þegar skólanum var læst í síðasta sinn árið 1997. Bernharð segir, að þessi gögn
hafi misfarist, nokkuð af þeim hafi komið í leitirnar, en að enn vanti nokkrar fundagerðarbækur, möppur, myndalbúm og fleira. "Við skrifum
aðeins eftir þeim heimildum sem fyrir liggja og ef þetta kemur ekki í leitirnar verður ritið snauðara en við höfðum vænst. Þá
verða í ritinu endurminningar milli 10 og 20 nemenda sem hafa verið í skólanum, en elsti nemandinn er kominn á níræðisaldur. Við höfum
haft samband við marga, ég hef m.a. rætt við iðnmeistara og spurt þá af hverju þeir fóru í verknámsdeildir og einnig höfum
við fengið margar greinar um skólann." Þá stendur til að vera með margar myndir í bókinni og enn eru þeir félagar að leita að
myndum úr skólastarfinu. "Við höfum fengið margar myndir, bæði af Minjasafninu og frá nemendum. Ég auglýsi alveg sérstaklega eftir
myndum úr kennslustundum og þá helst úr verklegum stofum þar sem voru að kenna þau Freyja Antonsdóttir, Guðmundur Frímann, Guðmundur
Gunnarsson og Kristbjörg Kristjánsdóttir. Í tímum hjá þessum kennurum voru stúlkurnar að læra hannyrðir og piltarnir að
læra bókband og smíðar. Okkur liggur nokkuð á að fá svona myndir í hendur og því bið ég þá, sem hafa
slíkar undir höndum að hafa samband við okkur í ritnefndinni," sagði Bernharð Haraldsson m.a. í viðtali við Vikudag í síðustu
viku.