Unnið að lagfæringum í Baugaseli

Barkárdalur er mikill og langur eyðidalur sem teygir sig vestur úr Hörgárdal inn í miðbik Tröllaskagans. Þar voru fyrrum þrjú býli og fór það sem innst var í dalnum, Baugasel, í eyði árið 1965. Dalurinn er girtur háum fjöllum og sá ekki til sólar í Baugaseli frá 4. október til 8. mars eða í 157 daga. Þar var fallegur torfbær sem Ferðafélagið Hörgur gerði upp sem gönguskála á árunum upp úr 1980.  

Bærinn hefur síðan látið talsvert á sjá, en er þó vel uppistandandi og getur þjónað hlutverki sínu sem gönguskáli þegar menn eru á leið inn á Tröllaskaga. Nú hafa 12 erlendir sjálfboðaliðar úr samtökunum SEEDS unnið í 10 daga að lagfæringum á bænum í samvinnu við Ferðafélagið Hörg. Hafa þeir Gestur Hauksson og Bjarni E. Guðleifsson stýrt verkinu og má segja að mikið hafi áunnist. Rusl var fjarlægt, bærinn málaður að utan og grafin upp tóft fjóssins sem var fallið. Kom þá í ljós gamli flórinn sem þarna var falinn undir mold, grjóti og járni úr samanföllnu fjósþakinu. Erlendu sjálfboðaliðarnir voru flestir á þrítugsaldri, duglegir og víluðu ekki fyrir sér að vinna óþrifaverk, og dáðust þeir mikið að íslenskri náttúru.

Nýjast