Unnið að endurbótum á brunavörnum í íþróttahúsinu

Íþróttahúsið við Laugargötu á Akureyri: Mynd: Hörður Geirsson.
Íþróttahúsið við Laugargötu á Akureyri: Mynd: Hörður Geirsson.

Foreldrar yngstu barnanna í Naustaskóla, sem stunda íþróttir í íþróttahúsinu við Laugargötu, hafa haft áhyggjur af brunavarnarmálum í húsinu. Þeir tala um að brunavörnum sé ábótavant, þar vanti m.a. viðvörunarljós, viðvörunarkerfi og neyðarútganga. Dæmi eru um að einstaka foreldrar hafi dregið börn sín úr íþróttatímum þar til málin komast í lag.

Guðríður Friðriksdóttir framkvæmdastjóri Fasteigna Akureyrarbæjar segir að verið sé að setja upp brunavarnakerfi í húsinu og gera tvær flóttaleiðir. Svona framkvæmdir taki tíma en hún vonast til að málin komist í lag sem allra fyrst. Guðríður bendir á að húsið við Laugargötu sé orðið gamalt og að kröfur, m.a. varðandi brunamál, séu allt aðrar en voru þá. Verið er að byggja við Naustaskóla og er ráðgert að nýtt íþróttahús þar verði tekið í notkun árið 2014.

Ágúst Jakobsson skólastjóri Naustaskóla segir að foreldrar hafi verið upplýstir um stöðu mála varðandi úrbætur. Ástandið sé þó ekki metið sem veruleg hætta af þar til bærum yfirvöldum, og ekki hafi þótt ástæða til að hætta kennslu í húsinu. Nokkir foreldrar hafi þó tekið þá ákvörðun að senda börn sín ekki í íþróttatíma þarna fyrr en úrbótum sé lokið. Brekkuskóli nýtir einnig íþróttahúisið við Laugargötu til íþróttakennslu.   

Nýjast