“Ungu læknarnir” á Húsavík í hálfa öld

Undirritaður ræddi á dögunum við frænda sinn sem var á ferð um Norðurland í sumarfríi og er starfandi læknir. Talið barst að heilbrigðismálum á Húsavík og hann minntist á að þáttur Húsavíkurlæknanna Ingimars og Gísla í þróun heilbrigðisþjónustu hérlendis í tengslum við upphaf heilsugæslustöðva, væri afar merkur og mætti ekki gleymast.
Hér var hann að tala um þá Ingimar Hjálmarsson og Gísla G. Auðunsson sem hófu læknisstörf á Húsavík fyrir 50 árum og eru, þó ótrúlegt sé, enn að í héraði, þó í afleysingum sé! Fyrir 50 árum voru þeir Ingimar og Gísli eðlilega jafnan kallaðir “ungu læknarnir” manna á meðal og eru raunar nefndir það enn af eldri Þingeyingum, þrátt fyrir að Ingimar verði áttræður á þessu ári og Gísli á því næsta.
Í ár er sem sé hálf öld frá því þeir félagar settust að á Húsavík. Og þessara tímamóta minntust fjölskyldur þeirra á dögunum, þegar farin var einskonar pílagrímsför á staðina þar sem þeir hafa varið starfsævinni, á læknastofuna að Ketilsbraut 20 (þar sem Gísli bjó og í áratugi), upp á Gamla sjúkrahús og svo það nýja og Heilsugæslustöðina.
Svo skemmtilega vill til að fyrir 10 árum, í september 2006, tók undirritaður viðtal við þá félaga Gísla og Ingimar undir fyrirsögnini: “Ungu læknarnir enn að eftir 40 ár.” Og tilefnið? Jú, sú staðreynd að þeir voru eiginlega að hætta og höfðu þá raunar formlega hætt í föstu starfi fyrir þremur árum. Að sjálfsögðu hvarflaði ekki að manni þá að eftir áratug gæti maður skrifað aðrar grein undir fyrirsögninni: “Ungu læknarnir enn að eftir 50 ár!” JS