Ungmennabókin Órói, krunk hrafnanna komin út

Hrund Hlöðversdóttir skólastjóri í Hrafnagilsskóla og rithöfundur fékk bók sína Órói, krunk hrafnann…
Hrund Hlöðversdóttir skólastjóri í Hrafnagilsskóla og rithöfundur fékk bók sína Órói, krunk hrafnanna afhenta á Hálsi í Öxnadal. Nemendur úr 8. bekk Hrafnagilsskóla og 7. og 8. bekk Þelamerkurskóla voru viðstaddir og tóku þátt í viðburðinum

Tveir draugar, Sesselía Hólaskotta og afturgangan Sigurfagur afhentu Hrund Hlöðversdóttur, rithöfundi fyrsta eintakið af bók hennar; Órói, krunk hrafnanna. Báðir koma þeir við sögu í bókinni, sem er sjálfstætt framhald af bókinni Ógn, ráðgátan um Dísar-Svan sem út kom í fyrrahaust. Sögusvið Óróa er í kyngimagnaðri náttúrufegurð við Hraunsvatn undir Hraundranga í Öxnadal.

Hrund segir að ákveðið hafi verið að hafa dálítinn gjörning í kringum útkomu bókarinnar og fór hann fram við bæinn Háls í Öxnadal. Draugarnir mættu beint úr álfheimum með fyrstu bókina í farteskinu. Nemendur úr 8. bekk Hrafnagilsskóla og 7. og 8. bekk Þelamerkurskóla voru viðstaddir og tóku þátt í viðburðinum, en Órói, krunk hrafnanna er ungmennabók og byggir á þjóðararfi Íslendinga.

Hrund er skólastjóri í Hrafnagilsskóla, en þaðan komu nemendur sem og einnig úr tveimur bekkjum Þelamerkurskóla. „Ég valdi að fá nemendur á unglingastigi með í þennan gjörning því mér fannst það liggja beinast við og kynna nýju bókin fyrir ungmennum á þeim aldri. Síðasta vor var fyrri bók mín, Ógn, ráðgátan um Dísar Svan lesin í tengslum við Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar á Norðurlandi eystra og því margir nemendur í 8. bekk sem þekkja þá bók og hafa lesið hana,“ segir hún.

Hrund kynnti til sögunnar í fyrrahaust stúlkuna Svandísi og vini hennar í bókinni Ógn og eru þau á einnig á ferðinni í nýju bókinni, Óróa. Hún segir viðtökur við fyrstu bók sinni hafa verið góðar. „Fyrir rithöfund sem er að stíga sín fyrstu skref var mikill skóli að detta inn með nýja bók beint ofan í jólabókarflóðið þar sem höfundar keppast við að koma sinni bók að og við bættist að covid var aftur í uppsiglingu í aðdraganda jólanna 2021 með samkomutakmörkunum sem drógu m.a. úr bókakynningum,“ segir hún.

Þjóðtrúin stór hluti af okkur

Nú eru það draugar sem koma fyrir í þjóðsagnaheiminum og flækjast inn í veröld Svandísar og vina hennar þegar þau þurfa enn og aftur að leysa málin í álfheimum. „Það reynir á útsjónarsemi, þor og dirfsku Svandísar og vinahópsins ef þeim á að takast að leysa vini úr haldi, finna falin fjársjóð og stöðva yfirvofandi stríð,“ segir Hrund um bók sína. „Þjóðsögurnar hafa fylgt Íslendingum í gegnum aldirnar og þjóðtrúin er í raun stærri hluti af okkur en margir vilja viðurkenna. Það er stutt í að almenningur fari að tala um að álfar hafi fengið hluti að láni sem ekki finnast og draugasögur eru alltaf vinsælar, bæði þær gömlu og einnig nýrri.“

Hrund segir mikilvægt að sínu mati að íslensk ungmenni tengi við sinn þjóðsagnararf og kveðst mikið velta fyrir sér hvernig best sé að koma honum áfram til komandi kynslóða. „Fyrst langaði mig til að nútímavæða þjóðsögurnar og gera þær þannig aðgengilegri fyrir börn og unglinga. En síðan kom þessi hugmynd til mín að búa til sögusvið í nútímanum þar sem þessir heimar mætast og færa á þann hátt þjóðsagnaverurnar inn í nútímann. Hugmyndin fæddist við göngu upp að Hraunsvatni undir Hraundranga í Öxnadal og þar er sögusviðið í mínum huga þó svo að það komi aldrei alveg fram í sögunum,“ segir hún.

Þriðja bókin í smíðum

Þriðja bókin er í smíðum og þar verður ekkert gefið eftir í spennu og dularkrafti. Þar koma fram ýmis konar vatnaskrímsli og marmennlar sem eru hafbúar. Átökin milli skuggafólks og huldufólks halda áfram og Svandís og vinir hennar lenda í ótrúlegum ævintýrum. Hrund segir þá bók hugsaða sem þriðju og síðastu bókina um Svandísi og vini hennar, „en þegar kemur að þjóðsögunum okkar Íslendinga er að finna ógrynni hugmynda og af nógu að taka svo hægt væri að halda áfram að skapa óteljandi ævintýri.“


Athugasemdir

Nýjast