Ungkarlakór frá USA á Norðurlandi um helgina
Ungkarlakór Pennsylvania State háskólans í Bandaríkjunum, Penn State Glee Club, er í heimsókn á Íslandi þessa dagana. Kórinn telur um 50 manns, allt stúdentar við skólann og á aldrinum 18-22 ára. Kórinn á sér langa sögu, stofnaður árið 1888 og hefur í gegnum tíðina ferðast um allan heim. Kórinn kom fram í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur miðvikudaginn 18. maí og heimsótti Skálholtskirkju s.l. fimmtudag.
Piltarnir munu einnig gleðja Norðlendinga með söng sínum í Húsavíkurkirkju á morgun, laugardaginn 21. maí kl. 17 og syngja við messu í Akureyrarkirkju sunnudaginn 22. maí kl. 11. Á dagskrá eru lög úr ýmsum áttum frá klassískum verkum til þjóðlaga og gospeltónlistar. Enginn aðgangseyrir er að tónleikum kórsins. Stjórnandi er Christopher Kiver en hann hefur hlotið viðurkenningar fyrir störf sín að kórmálum, m.a. tvenn Grammy verðlaun.
Íslendingar þekkja vel karlakóramenningu en þó er ekki vaninn að slíkur kór sé skipaður eingöngu mönnum á þessum aldri. Kórinn er þekktur fyrir einstaklega fágaðan söng og hefur oft komið fram á þingum bandarískra kórstjórasambanda þar sem verið er að sýna það besta í faginu. SÞ/js