Ungar norðlenskar konur í tónlist
Fimmtudaginn 11. ágúst fara fram þriðju og jafnframt síðustu tónleikarnir í sumartónleikaröð Norðlenskra kvenna í tónlist.
Á tónleikunum kemur fram söngkonan Marína Ósk ásamt bassaleikaranum Stefáni Gunnarssyni og öðrum góðum gestum. Dúettinn hefur áður spilað saman opinberlega en mætir hér í fyrsta sinn með tónleikalangt prógram. Efnisskráin inniheldur þekkt lög sem þau hafa útsett fyrir rödd og bassa og spannar tímalínu allt frá Duran Duran til Justin Bieber.
Marína Ósk hefur síðastliðin 3 ár verið búsett í Amsterdam þar sem hún lærir djass söng en á sumrin hefur leiðin legið beinustu leið heim á Akureyri.
Dúettinn er samheldinn og þéttur og verður músíkin allsráðandi þetta kvöld. Marína og gestir lofa einstaklega huggulegri og skemmtilegri kvöldstund.
Tónleikarnir fara fram í Hlöðunni, Litla-Garði og hefjast kl. 20.30. Menningarsjóður Akureyrarbæjar styrkir tónleikaröðina og er hún haldin í samstarfi við Listasumar.