Mærudagar gengu í alla staði vel fyrir sig að sögn Guðna Bragasonar en fyrirtæki hans, GB Viðburðir sá um rekstur og utanumhald á hátíðinni í ár eins og í fyrra.
Aðspurður um fjölda gesta segist hann ekki gera sér fullkomlega grein fyrir því. „Mér fannst svona á laugardeginum að þetta hafi verið svipað og í fyrra. Við skutum á 4-5 þúsund gesti en ætli það sé ekki nær fjögur þúsund. Það hefur sjálfsagt verið eitthvað færra en verið hefur vegna veðurs. Það var til dæmis mun færra á tjaldstæðinu við Framhaldsskólann en undanfarin ár,“ sagði Guðni í samtali við Vikudag.
„Við erum svo ofboðslega ánægð með hvernig til tókst og hvernig unga fólkið hagaði sér og skildi við sig og hvernig húsið leit út á eftir,“ sagði Þorgrímur Sigmundsson í Hestamannafélaginu Grana sem stendur að Hlöðuballinu í Reiðhöllinni ár hvert á Mærudögum. Þorgrímur sagði jafnframt að engin leiðindaatvik hafi komið upp, ekkert tuð, engin slagsmál og ekkert vesen.
„Okkur langar til að þakka fyrir okkur, þakka fyrir hvernig fólk gekk um og hagaði sér og hvað unga fólkið var kurteist og skemmtilegt í viðmóti. Það var ótrúlegt að vera þarna í vinnu og upplifa hvernig þetta rúllaði bara eins og allir væru þarna í sínu albesta formi,“ sagði Þorgrímur og bætti við að um 630 manns hafi sótt ballið sem var aðalviðburður Mærudaga á föstudagskvöldinu.
„Lögreglan var þarna og þeir höfðu orð á því hvað það var mikil og góð gæsla hjá okkur,“ en Þorgrímur segir að um 30 sjálfboðaliðar frá Hestamannafélaginu Grana hafi staðið vaktina og allir verið ánægðir með hvernig til tókst.