Halldóra öskraði á manninn þegar hún varð hans vör og brá honum svo mikið að hann öskraði á móti og hljóp út úr húsinu. "Ég stökk fram úr rúminu og öskraði á eftir manninum sem hljóp niður Eyrarveginn og hringdi svo á lögregluna," sagði Halldóra í samtali við Vikudag. Lögreglan hafði fljótlega hendur í hári mannsins, sem hafði skilið bíl sinn eftir fyrir utan hús Halldóru með lyklunum í. Halldóra sagði að þetta hafi verið óhugnaleg lífsreynsla en maðurinn, sem var svartklæddur og með húfu eða hettu á höfðinu, hafði náð að teygja sig inn um glugga í læsingu á bakhurð og þannig komist inn í húsið. "Blessaður maðurinn varð ekki síður hræddur en ég þegar ég öskraði á hann, vonandi hefur þetta kennt honum eitthvað og hann fór tómhentur í burtu," sagði Halldóra, sem sjálf var enn að jafna sig eftir þessa erfiðu lífsreynslu.
"Ég var einmitt að tala um það í vinnunni nýlega hversu örugg mér fyndist ég vera þarna í götunni, ekki síst þar sem lögreglumaður býr í næsta húsi við mig. Innbrotsþjófurinn var heppinn að hafa ekki brotist inn hjá honum."