Undirbúningur vegna alþingis- kosninga í fullum gangi

Um helgina halda þrír stjórnmálaflokkar í Norðausturkjördæmi fundi, þar sem undirbúningur vegna komandi alþingiskosninga verður m.a. á dagskrá. Framsóknarmenn halda aukakjördæmisþing í Mývatnssveit á morgun laugardag, aðalfundur kjördæmisráðs Frjálslynda flokksins verðu haldinn á Akureyri á sunnudag, sem og kjördæmisþing Samfylkingarinnar.  

Framsóknarmenn funda á Hótel Reynihlíð kl. 12.00 á morgun, þar sem ræddar verða leiðir við að raða á framboðslista í vor. Samfylkingin fundar í Brekkuskóla kl. 13.00 á sunnudag en þar verður tekin fyrir tillaga stjórnar kjördæmisráðs, þar sem lagt er til  að fram fari opið prófkjör um átta efstu sætin á lista flokksins fyrir alþingiskosningarnar í vor en jafnframt að tvo efstu sætin verði kynjaskipt. Á aðalfundi kjördæmisráðs Frjálslynda flokksins, sem fram fer í Flugsafni Íslands á Akureyrarflugvelli á sunudag kl. 15.00 eru venjuleg aðalfundarstörf á dagskrá og einnig undirbúningir komandi kosninga.

Kjörstjórn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðausturkjördæmi hefur auglýst eftir frambjóðendum í átta efstu sæti á framboðslista flokksins í kjördæminu. Framboðsfrestur rennur út kl. 17:00 þann 16. febrúar en kjörfundur verður haldinn 28. febrúar nk. Á fundi kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sem haldinn var í Mývatnssveit s.l. laugardag, var samþykkt að halda prófkjör laugardaginn 14. mars nk., þar sem kosið verður um sex efstu sæti listans. 

Nýjast