Umtalsvert færri íslenskir unglingar nota vímuefni

Niðurstöður ESPAD rannsóknarinnar 1995-2007, sem kynntar voru í morgun, sýna að íslenskir unglingar hafa nokkra sérstöðu hvað neyslu ávana- og vímuefna varðar. Umtalsvert fleiri unglingar á Íslandi hafa engin slík efni notað um ævina en í nokkru öðru landi í Evrópu. Reykingar unglinga eru fátíðari á Íslandi en í nær öllum öðrum Evrópulöndum og hvergi drekka færri unglingar áfengi.  

Raunar virðast unglingar á Íslandi að þessu leyti draga meiri dám af jafnöldrum sínum í Bandaríkjunum en á meginlandi Evrópu. Kannabisneysla íslenskra unglinga er jafnframt talsvert undir meðaltali Evrópu þótt sérstaða þeirra sé nokkru minni að því leyti. Neysla íslenskra unglinga á ávana- og vímuefnum hefur dregist umtalsvert saman á undanförnum árum og má þakka öflugu forvarnarstarfi þann árangur, segir m.a. í skýrslunni. Hins vegar ber þess að geta að neysla unglinga á slíkum efnum skýrist að verulegu leyti af neyslu þeirra sem eldri eru og Ísland er meðal þeirra landa þar sem minnst er reykt og drukkið. Árangur forvarnarstarfsins felst því einkum í því að tekist hefur að snúa ofan af óeðlilega mikilli vímuefnaneysla íslenskra unglinga. Svo virðist sem hækkun sjálfræðisaldurs árið 1998 og stóraukið foreldraeftirlit hafi átt stóran hlut í þeim árangri. Þótt lítil og minnkandi vímuefnaneysla íslenskra unglinga séu góðar fréttir fyrir þá sem láta sig velferð þeirra varða er rétt að hafa í huga að þeir íslensku unglingar sem á annað borð neyta áfengis virðast lenda í fleiri og fjölbreyttari vandamálum en jafnaldrar þeirra annars staðar í Evrópu. Mikilvægt er að hugað verði nánar að vandamálum þessa hóps íslenskra unglinga í framtíðinni, segir ennfremur í skýrslunni.

Niðurstöður þessarar nýjustu umferðar evrópsku vímuefnarannsóknarinnar voru kynntar samtímis á blaðamannafundnum í 35 þátttökulöndum rannsóknarinnar og fór kynningin hér á landi fram á veitingastaðnum Friðiki V á Akureyri. Hér er um að ræða viðamestu alþjóðlegu rannsókn samtímans á reykingum, áfengisneyslu og ólöglegri vímuefnaneyslu unglinga og hafa fyrri niðurstöður þessarar rannsóknar legið til grundvallar forvarnarstarfi víðast hvar í Evrópu. Á Íslandi stendur Háskólinn á Akureyri að rannsókninni með tilstyrk Forvarnasjóðs og Háskólasjóðs KEA.

Nýjast