Umtalsvert aukin aðsókn var að öllum skíðasvæðum á landinu

Skíðaveturinn var sérlega góður. Aldrei hafa eins margir nýtt sér aðstöðuna sem skíðasvæðin á Íslandi hafa að bjóða. Nokkrar skýringar kunna að vera á aukinni aðsókn: Snjóalög og veðurfar voru sérlega hagstæð en einnig hafði staða efnahagsmála augljóslega áhrif. Talsvert minna var um að fólk færi í skíðaferðir til annarra landa. Aðsókn á skíðasvæði landsins í vetur jókst um 42% frá fyrra vetri og alls komu tæplega 67.000 gestir á skíði í Hlíðarfjalli í vetur.  

Umtalsvert aukin aðsókn var að öllum skíðasvæðum á landinu. Skíðaveturinn hófst snemma. Fyrsta skíðasvæðið sem var opnað var skíðsvæðið á Dalvík en þar hófst vertíðin 25. október 2008. Flest skíðasvæðin á Norðurlandi fylgdu fljótlega í kjölfarið. Skíðavæði í öðrum landshlutum voru komin í fullan rekstur um miðjan desember. Síðustu skíðasvæðunum var lokað 3. maí en það voru Hlíðarfjall ofan Akureyrar, og skíðasvæðin á Siglufirði og Seyðisfirði. Sérstaklega var febrúar mánuður mjög góður enda eru vetrarfrí í grunnskólum orðinn fastur liður í skólastarfi flestrar grunnskóla.

Greinilegt er að margir lögðu land undir fót og heimsóttu skíðavæði víðs vegar um landsbyggðina. Skíðaiðkunn er orðin stór þáttur í vetrarferðaþjónustu á landsbyggðinni. Sífellt fleiri heimsækja skíðasvæðin á landsbyggðinni á sama tíma og öll aðsóknarmet eru slegin á skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins. Mjög góð sala á skíða- og brettabúnaði í skíðavöruverslunum landsins hélst í hendur við þessa stórauknu aðsókn á skíðasvæðin. Einnig var áberandi gríðarleg spurn eftir notuðum búnaði og voru dæmi um að söluaðilar hefðu langa biðlista eftir slíku.

Heildaraðsókn veturinn 2007-2008 var 170.000 gestir.

Heildaraðsókn veturinn 2008-2009 var 241.000 gestir. Aukning frá fyrra ári um 42%.

Aðóknartölur meðal helstu skíðasvæðanna:

Aðsókn í Bláfjöllum                             84.599

Aðsókn í Hlíðarfjalli                            66.750

Aðsókn á Ísafirði                                 22.000

Aðsókn í Oddsskarði, Fjarðarbyggð     18.000

Meðal þess sem Samtök skíðasvæða á Íslandi stóðu fyrir á þessum vetri var að gefa út bæklinginn "Almennu skíðareglurnar". Þar er um að ræða bækling sem fjallar um almennar umgengis- og öryggisreglur fyrir skíða- og snjóbrettafólk á skíðavæðum.  Ársfundur Samtaka skíðavæða verður haldinn á Seyðisfirði í dag og á morgun.  Þar ræða forsvarsmenn það sem hæst hefur borið í vetur og bera saman bækur sínar.

Nýjast