Umsóknir um námsvist við Háskólann á Akureyri á pari við árið áður

Háskólinn á Akureyri. Mynd/Unak.is
Háskólinn á Akureyri. Mynd/Unak.is

Umsóknarfrestur um nám við Háskólann á Akureyri rann út 5. júní en sökum Hvítasunnuhelgarinnar var umsóknargáttin þó opin út 7. júní. Samtals bárust 1.716 umsóknir sem er 49 færri en í fyrra. Flestar umsóknir bárust um nám í hjúkrunarfræði eða 214 og 209 umsóknir í lögreglufræði fyrir verðandi lögreglumenn. Báðar þessar námsleiðir eru fjöldatakmarkaðar og að loknum samkeppnisprófum er aðeins hluti nemenda sem kemst í áframhaldandi nám.

„Við áttum alveg eins von á mun færri umsóknum í ár enda er atvinnulífið að fara á fullt aftur eftir COVID-19. Að umsækjendur hafi áhuga á sveigjanlegu námsfyrirkomulagi er hinsvegar augljóst og engan bilbug að finna á því. Það sem við ættum þó sem samfélag að hafa áhyggjur af er mikill áhugi fólks á námsleiðum þar sem mikil þörf er á fjölgun í starfsstéttunum en  takmörkuð pláss gefa okkur ekki svigrúm til að mennta alla til þessara stétta,“ segir Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri.

Stefnt er að því að umsækjendur fái svar um námsvist eigi síðar en 24. júní. Umsækjendur sjá svarið við umsókn inni í umsóknargátt HA. 


Athugasemdir

Nýjast