Umsátursástand skapaðist á Akureyri

Tveir lögreglumenn frá Sérsveit Ríkislögreglustjóra ásamt lögreglumönnum á Akureyri voru með viðbúnað við fjölbýlishús í Ásatúni á Akureyri. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var um að ræða veikan einstakling sem hafði haft í hótunum. Götum var lokað á meðan aðgerðunum stóð.

Lögreglan á Norðurlandi eystra sendi frá sér tilkynningu vegna málsins en þar segir að lögregla hafi verið kölluð út að íbúð í fjölbýlishúsi vegna hávaða frá pari og gruns um heimilisofbeldi.

Þar segir jafnframt að konan hafi verið komin út úr íbúðinni þegar lögreglu bar að garði og að maðurinn hafi verið æstur og í annarlegu ástandi. Hann vildi ekki gefa sig fram við lögreglu. Eftir samskipti við manninn var tekin ákvörðun um að sérsveit Ríkislögreglustjóra færi inn í húsið og yfirbugaði manninn til að tryggja öryggi hans og annarra íbúa hússins. Samkvæmt íbúa í nærliggjandi blokk voru „talsverð læti“ þegar maðurinn var handtekinn og að hann hafi verið fluttur handjárnaður á brott með sjúkrabíl.

Engan sakaði í aðgerðunum og fer málið í hefðbundna rannsókn.

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast