Náman myndi einnig blasa við aðkomuleið þeirra sem koma loftleiðina til Akureyrar. Umhverfisnefndin fékk til umsagnar matsskýrslu vegna óskar um breytingu á aðalskipulagi vegna efnistöku í landi Hvamms. Í skýrslunni kemur fram að óskað er eftir leyfi til að opna námu vegna efnistöku m.a. vegna lengingar Akureyrarflugvallar. Nefndin telur ljóst að ekki séu lengur forsendur fyrir því að efni verði tekið til lengingar flugvallarins en matsskýrslan byggir að miklu leyti á þeirri forsendu. Umhverfisnefnd telur að forsendur skýrslunnar hafi breyst og telur ekki ástæðu til að mæla með opnun efnistökunámu á þessum stað. "Vissulega eru góð umhverfisleg rök fyrir því að flytja þurfi efni sem styst til framkvæmda en ekkert liggur fyrir um notkun efnis úr þessari fyrirhuguðu námu í framtíðinni," segir ennfremur í bókun umhverfisnefndar. Bókun nefndarinnar var til umfjöllunar á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar í vikunni, sem frestaði afgreiðslu til næsta fundar.