Umferðarspá í Vaðlaheiðargöngum mjög varfærin

Það er ekki alltaf auðvelt að komast yfir Víkurskarð yfir vetrartímann.
Það er ekki alltaf auðvelt að komast yfir Víkurskarð yfir vetrartímann.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í morgun, að hann sæi ekkert því til fyrirstöðu að ljúka fjármögnunarsamningi við stjórn Vaðlaheiðarganga um framkvæmdir við Vaðlaheiðargöng. Hann vonast til að hægt verði að ljúka undirbúningi á allra næstu vikum. Steingrímur sagði að umferðarspá um göngin væri mjög varfærin og hann taldi mun meiri líkur á að umferð myndi aukast umtalsvert með tilkomu gangnanna.

Steingrímur nefndi í því sambandi að það væri uppgangur á Eyjafjarðarsvæðinu og að stefnt væri að umtalsverðri uppbyggingu í Þingeyjarsýslu. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagðist fylgjandi Vaðlaheiðargöngum en hann ítrekaði þá afstöðu sína framkvæmdin byggðist algerlega á efnahagslegum forsendum og að veggjaldið standi undir kostnaði og greiðslu lána.

MP banki hefur farið yfir forsendurnar fjármögnunnar fyrir stjórn Vaðlaheiðarganga og sagði Arnar Guðmundsson fulltrúi bankans á fundinum að verkefnið geti gengið eftir eftir og staðið undir lánum. Rætt er um að veggjaldið verði 993 krónur með virðisaukaskatti og að lánin yrðu greidd upp á 25-30 árum. Fram kom hjá Arnari að miðað væri við að ef gjaldið yrði lækkað um 10%, miðað við það sem nú væri lagt upp með, þýddi það þriggja ára lengingu á lánstíma, t.d. úr 25 árum í 28 ár.

Um 86% Akureyringa eru fylgjandi eða mjög fylgjandi Vaðlaheiðargöngum, samkvæmt því sem fram kemur í nýrri skoðanakönnun. Þetta kom fram  í máli Péturs Þórs Jónassonar stjórnarmanns í Vaðlaheiðargöngum fundinum í morgun. Ekki kom fram hjá Pétri Þór hver framkvæmdi könnunina. Hann sagði jafnframt að í eldri könnun, sem gerð var meðal íbúa í Eyjafiði og Þingeyjarsýslu, hefðu 92% aðspurðra verið fylgjandi framkvæmdinni. Pétur Þór sagði að aðilar í ferðaþjónustu t.d. eigendur hópferðabíla væru mjög fylgjandi Vaðlaheiðargöngum og myndu nýta þau og að það sama ætti við um alla aðra þungaflutninga.

Kostnaður við undirbúning framkvæmdarinnar er nú um 320 milljónir króna og kom fram á fundinum að Vegagerðin hefði greitt þann kostnað. Fjármálaráðherra sagði ekkert óeðlilegt við að Vegagerðin hafi greitt þessa upphæð. Framkvæmdin verði eign ríkisins þegar hún hefði verið greidd upp og hún yrði hluti af samgöngukerfi landsins. Mjög skiptar skoðanir komu fram meðal þingmanna í umhverfis- og samgöngunefnd við umræðuna í morgun. Þór Saari þingmaður Hreyfingainnar tók þar dýpst í árinni og taldi að verkefnið gæti alls ekki staðið undir sér. Hann taldi mikilvægt að óháður aðili færi yfir allar forsendur og tóku fleiri þingmenn undir það.

 

 

 

 

 

Nýjast