Jón Þorvaldur bendir á að samkvæmt norskum stöðlum um einbreið jarðgöng sé viðunandi umferð um 300 bílar að meðaltali á dag, en ljóst sé að Múlagöngin hafi fyrir löngu sprengt þann staðal. „Nú er spurning hvaða áhrif það hefur ef umferð eykst til muna um Múlagöng og hvort aukin umferð hafi fælingarmátt í för með sér fyrir ferðamenn. Mörgum þykir óþægilegt að aka um einbreið göng nú þegar, en ef umferðaröngþveiti skapast í göngunum mun það örugglega fæla einhverja frá því að fara um þau," segir Jón Þorvaldur. „Maður vonar það besta en við vitum ekki enn hver sársaukamörk umferðarinnar eru."
Jón Þorvaldur velti upp nokkrum spurningum í fyrirlestri sem hann hélt við Háskólann á Akureyri nýlega og varða Héðinsfjarðargöngin og tilkomu þeirra. Meðal annars hvort ferðamenn sem koma til Akureyrar muni í auknum mæli fara út með Eyjafirði á leið sinni til baka í stað þess að aka sömu leið yfir Öxnadalsheiði. Leiðin um Siglufjörð sé nokkru lengri, um 100 kílómetrum, en að mörgu leyti fallegri og þá hafi ferðalangar viðkomu í fjölda norðlenskra bæja.
„En ég held að það sé ekki spurning að göngin skapa tækifæri m.a. í ferðaþjónustu í Eyjafirði öllum og á Norðurlandi. Þetta er landssvæði sem að mörgu leyti má segja að sé vannýtt auðlind, hér er margt í boði sem hefur farið framhjá mönnum," segir hann. Hann nefnir að mikil tækifæri séu fyrir hendi hvað Siglufjörð varðar, bærinn hafi mikið aðdráttarafl og sérstöðu meðal íslenskra bæja, umhverfið sé sérstakt og saga bæjarins. „Siglufjörður er enn einn konfektmolinn sem Norðlendingar hafa upp á að bjóða," segir Jón Þorvaldur.
Þá nefndi hann að síðar kæmi í ljós hvernig íbúar þéttbýlisstaðanna, Ólafsfjarðar og Siglufjarðar myndu líta göngin. „Það má velta því fyrir sér hvort þeir lítið svo á að þau séu eins konar innanbæjargata, þetta eru aðeins 15 kílómetrar eða jafnlangt og úr miðbæ Reykjavíkur og upp í Mosfellsbæ."