Heildarumferð ársins 2025 á milli Eyjarfjarðar og Þingeyjarsveitar var 846.918 ferðir sem jafngildir 2.320 ferðum að meðaltali á dag. Þetta er aukning um 7,6% á milli ára. Ársaukning á ferðum í gegnum göngin var 3,3% en 22% um Víkurskarð. Hlutfall umferðar um göngin var 74% en var 77% árið 2024.
Valgeir Bergmann framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga segir aukningu umferðar á Norðurlandi hafa verið langt umfram aðra landshluta. Gera megi ráð fyrir að umferð um hringveg á landinu öllu hafi aukist um 1% á milli áranna 2024 og 2025. Þar skipti mestu samdráttur umferðar á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi.
Veður og færð með besta móti
Hvað varðar mikla aukningu umferðar um Víkurskarð komi nokkrir þættir við sögu. Veður og færð sé einn þeirra, en hvorutveggja hafi verið með besta móti allt liðið ár. „Samkvæmt mínu bókhaldi var Víkurskarð einungis lokað í tvo daga vegna ófærðar á nýliðnu ári, 20.janúar 2025 og hins vegar um mitt sumar þegar það snjóaði 3.júní og þá var nú gott að hafa göngin“ segir hann.
Þá nefnir hann að veggjald skipti máli, hvort sem um er að ræða erlenda ferðamenn eða Íslendinga sé ekki ólíklegt að sumir vilja sleppa því að greiða gjald og kjósi lengri leið í sparnaðarskyni. Eins nefnir hann að markaðssetning á Norðurstrandaleið -(Arctic Coast Way) skili því að sumir ferðamenn kjósi að keyri fram hjá göngunum og meðfram strandlengjunni til að njóta útsýnis yfir haf, fjöll og firði.

Engin slys
Valgeir segir að umferðaraukning um Vaðlaheiðagöng upp á 3,3% milli ára sé vel við unandi. Meðalumferð á dag (ÁDU) árið 2025 endaði í 1718 ferðum á dag í gegnum göngin það er 10% meira en umferðaspá Vegagerðarinnar gerði ráð fyrir árið 2012 þegar umræða um hvort fara ætti í þessa framkvæmd stóð sem hæðst.
„Það er í sjálfu sér mjög jákvætt fyrir rekstraraðila Vaðlaheiðargang auk þess sem um mun öruggari leiða að ræða en engin slys hafa orðið í göngunum frá því þau opnuðu fyrir almenna umferð og verður þannig vonandi áfram um ókomna tíð".