Um sjö milljónir greiddar í verkfallsbætur

Mynd: Framsýn
Mynd: Framsýn

Verkfall sjómanna hefur nú staðið yfir í sjö vikur en það hófst 14. Desember sl.

á vef Framsýnar, stéttarfélags kemur fram að um 30 sjómenn innan stéttarfélagsins falla beint undir þann kjarasamning sem deilurnar snúast um, það er kjarasamning Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Verkfallið nær ekki til sjómanna á hvalaskoðunarbátum þar sem Framsýn er með kjarasamning við Samtök atvinnulífsins vegna þessara starfa um borð.

„Miðað við núverandi stöðu, það er að undirmenn eru í boðuðu verkfalli og þar sem verkbann hefur verið sett á vélstjóra eru þessir hópar launalausir hjá viðkomandi útgerðum. Hins vegar eiga stýrimenn og skipstjórar fullan  rétt á því að halda kauptryggingu þar sem þeir eru ekki í verkfalli,“ segir á vef Framsýnar.

Þá kemur fram að verkfallssjóður stéttarfélagsins sé sterkur og þoli langt verkfall en Framsýn greiðir sjómönnum í verkfalli kr. 278.671,- á mánuði og hafa um 7 milljónir króna verið greiddar nú þegar. „Krafa Framsýnar er að útgerðarmenn gangi að hófværum kröfum sjómanna svo hægt verði að hefja veiðar á ný,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

 

Nýjast