Um lífsbaráttu og siðferði dýra

Konráð Erlendsson.
Konráð Erlendsson.

Öll vitum við að dýr njóta mismikilla vinsælda meðal mannfólksins. Hérlendis höfum við lengi metið dýr eftir notagildi. Þar eru vel metin góðu dýrin, þau sem við getum nytjað á einhvern hátt.

Svo er verri flokkurinn, vargarnir sem hafa unnið sér það til óhelgi að spilla ýmsum gögnum okkar og gæðum. Þeim bar að eyða.

Ég heyrði roskinn mann hæla sér af því í útvarpsviðtali að hafa tekist að útrýma haförnum algerlega á Austfjörðum. Nú held ég að fáir sem séð hafa þennan stóra og tignarlega fugl vilji hann feigan.

Meðal varganna er líklega tófan það dýr sem flestir voru einhuga um að væri skaðræðis skepna og réttdræp. Ekki bætti úr skák að aðfarir hennar eru ekki alltaf sem snyrtilegastar. Ég tala um þetta í þátíð, því með breyttum atvinnuháttum hefur viðhorf til tófunnar breyst.

Á ferðum mínum hér um heiðarnar á vetrum rekst ég oft á miklar tófuslóðir og mætti halda að tófur séu margar hér í kring, en þess ber að geta að tófan hefur ótrúlega yfirferð og þarf því ekki margar til að mynda mikið af slóðum. Ég rekst sjaldan á tófur í þessum ferðum og ekki fréttist oft af tjóni af þeirra völdum. Mér finnst tófan skemmtileg skepna, dugleg og útsjónarsöm í lífsbaráttunni og tel hana eiga jafnan rétt til lífs og önnur dýr.

Eitt sinn vorum við hjónin á gangi á skíðum á Laxárdalsheiði austan Másvatns. Komum við þá að tófuslóð. Hún lá í þráðbeinni línu vestan yfir vatnið og hélt áfram til austurs. Við fylgdum slóðinni og þar gaf á að líta. Rebbi hafði farið að snuðra á nokkru svæði og var greinilega að leita einhvers. Loks sáum við að tekið hafði verið til óspilltra málanna, grafið svo sem 40 cm niður úr snjónum og síðan gegnum gróður og mold og viti menn, þar í botni holunnar var frosin niður skurn af hálfu gæsareggi og vandlega hreinsað innan úr.

Hvernig mátti það vera að refur kæmi þráðbeina leið lengst vestan af heiði og byrjaði að leita að einhverju sem hann gat ekki fundið lykt af alla þessa leið?

Það eina sem okkur datt í hug var eftirfarandi: Tófan vaknar snemma morguns og veltir fyrir sér hvað eigi nú að hafa til morgunverðar. Jú, á ég ekki ennþá gæsareggið sem ég faldi í sumar austan við Másvatn. Svo tekur hún stefnuna þráðbeint á staðinn, leitar um stund og finnur eggið!

Ég get ekki skýrt þetta öðru vísi en svo að tófan hafi hreinlega munað eftir þessum matarforða frá sumrinu áður og til þess þarf nokkra greind.

Hrafninn er annað dýr sem misjafnt orð fer af. Hjá sumum er hann í miklu uppáhaldi en öðrum er mjög illa við hann. Hrafninn er minn uppáhalds fugl og tel ég hann hinn eina sanna þjóðarfugl okkar Íslendinga, svo samofinn er hann sögu þjóðarinnar, þjóðsögum og þjóðtrú. Hann er stór, fallega svartur, uppátækjasamur og skemmtilegur. Ég hef séð hann hrekja önd af hreiðri sínu með miklum hamagangi og fljúga svo með eggin eitt af öðru og koma þeim fyrir til veisluhalds.

Hrafninn er gáfaður fugl, það fékk ég staðfest nú fyrir skemmstu þegar sagt var frá prófi sem hægt er að leggja fyrir ýmis dýr til að met greind þeirra. Þetta próf var lagt fyrir 8 hrafna á mismunandi aldri og niðurstaðan var sú að fjögurra mánaða gamall hrafnsungi var greindari en greindustu mannapar og hafði svipaða greind og tveggja ára barn.

Ekki er sanngjarnt að dæma dýr út frá mannlegum siðferðisviðmiðum því þau heyja sína lífsbaráttu eins og við. Er er ekki maðurinn að því leyti verri að hann drepur sér til gamans og er eina dýrið sem herjar stanslaust á eigin tegund með styrjöldum og morðum?

Ég skora á Pétur Halldórsson, upplýsingafulltrúa Skógræktarinnar að skrifa næsta pistil.

 


Nýjast