Um 90 þátttakendur á Atvinnu- og nýsköpunarhelginni á Akureyri

Þórgnýr Dýrfjörð, Kristján Freyr Kristjánsson, Matthías Rögnvaldsson og Stefán B. Sigurðsson ræða má…
Þórgnýr Dýrfjörð, Kristján Freyr Kristjánsson, Matthías Rögnvaldsson og Stefán B. Sigurðsson ræða málin.

Það er ekki hægt að segja annað en Atvinnu- og nýsköpunarhelgin, sem hófst í Háskólanum á Akureyri seinni partinn í dag, fari vel af stað. Alls eru 90 þátttakendur skráðir til leiks, eða 20 fleiri en í fyrra og í kvöld kynntu þeir til sögunnar 34 hugmyndir. Ekki verður unnið með þær allar um helgina en Sigurður Guðmundsson annar af verkefnastjórum Atvinnu- og nýsköpunarhelgarinnar, segir að flestar hugmyndirnar séu áhugaverðar. Nú er búið að skipa 12-14 vinnuhópa og því allt komið í fullan gang. Sigurður segir að það sé mikill hugur í fólki og hann á því von á góðri og árangursríkri helgi.

Kristján Freyr Kristjánsson framkvæmdastjóri Innovit setti viðburðinn kl. 18.00 í dag en í framhaldinu fluttu þau Stefán B. Sigurðsson rektor HA og Agnes Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Bruggsmiðjunnar ávörp. Stefán sagði frá starfsemi háskólans, sem hefur þróast og stækkað gríðarlega á síðustu 25 árum. Agnes sagði frá upphafi Bruggsmiðjunnar, sem hefur einnig stækkað og dafnað frá því fyrirtækið var stofnað fyrir um 6 árum.

Strax kl. 10 í fyrramálið, laugardag, fer vinnan í HA í gang á ný og verður unnið af krafti fram á sunnudag en seinni partinn á sunnudag verða kynningar á þeim hugmyndum sem unnið hefur verið með og þær bestu verðlaunaðar.

Nýjast