Um 750 nemendur í Menntaskólanum á Akureyri í vetur

Menntaskólinn á Akureyri verður settur í næstu viku, miðvikudaginn 14. september, og kennsla hefst samkvæmt stundaskrá daginn eftir. Í vetur eru 748 nemendur skráðir til náms, 227 í fyrsta bekk, 204 í öðrum bekk, 163 í þriðja bekk og stúdentsefnin eru 154. Bekkjardeildir er 31.  


Í sumar hefur verið unnið að margvíslegum endurbótum á húsum skólans að því er fram kemur á vefsíðu hans.  Haldið var áfram að skipta um glugga í Gamla skóla, þar voru einnig viðarmálaðar hurðir sunnan við Langagang, þar sem eru skrifstofur skólayfirvalda og kennarastofa. Þá var settur dúkur í teppis stað í vinnustofu kennara Undir Svörtuloftum og stórbreyting gerð á aðstöðu námsráðgjafa í kjallara Gamla skóla.

Á Möðruvöllum var unnið að því að skipta um gler í stigagangi en mesta breytingin þar er að tölvustofurnar tvær í Möðruvallakjallara voru sameinaðar. Þar verður tveggja bekkja fyrirlestra- og vinnustofa, meðal annars til að uppfylla þarfir Íslandsáfangans. Tölvur verða í skoti við hlið þessa salar og jafnframt á gangi kjallarans. Ýmsar breytingar og uppfærslur hafa verið gerðar á tölvukerfi skólans, en áfram verður notaður opinn og ókeypis hugbúnaður. Á Hólum er helst framkvæmda að þar hefur verið skipt um dúk á stiganum úr anddyri niður í Kvos, en nýr dúkur var settur á anddyrið í fyrra.

Nýjast