Ljóst var í hvað stefndi á miðju síðasta ári og var fjárhagsáætlun félagsins þá endurskoðuð með hliðsjón af breyttu rekstrarumhverfi. Stefán Baldursson forstöðumaður Strætisvagna Akureyrar segir að stöðug fjölgun hafi orðið hvað varðar farþega sem nýta sér þjónustu vagnanna. Árið 2006 voru þeir um 150 þúsund talsins. Í byrjun árs 2007 var þjónustan farþegum að kostnaðarlausu og það ár ferðuðust um 330 þúsund manns með strætó. Á liðnu ári, 2008 voru farþegarnir um 440 þúsund alls og að auki voru farþegar á vegum Ferliþjónustunnar sem SVA sinnir jafnframt um 50 þúsund á síðastliðnu ári. "Þetta er gríðarlega mikil fjölgun, fólk er í auknum mæli farið að sjá kosti þessa að ferðast t.d. úr og í vinnu með ókeypis almenningsvögnum. Við urðum t.d. vör við það eftir bankahrunið í haust að farþegum fjölgaði, einkum var það fullorðið fólk á leið í vinnu eða úr sem fór að nota vagnana. Eins sýnist mér að skutl foreldra með börn sín í íþrótta- og tómstundaiðkun hafi dregist mjög saman því börnum og ungmennum sem eru á leið á íþróttaæfingar eða úr hefur fjölgað mjög mikið upp á síðkastið," segir Stefán.
Hann bendir á að fjölskyldur geti sparað umtalsverða fjárhæð á einu ári, eða sem jafngildi góðri utanlandsferð með því að minnka noktun einkabíla og nýta sér ókeypis almenningssamgögnur. Strætisvagnar Akureyrar hafa tekið í notkun tvo nýja vagna, sem raunar voru keyptir notaðir, þeir eru stórir og leysa af hólmi minni vagna sem oft og tíðum voru yfirfullir á álagstímum. Minni vagnarnir eru þó áfram í notkun.