Um 400 manns eldri en 80 ára bólusett á Akureyri

Um 400 manns, fólk 80 ára og eldra var bólusett í slökkvistöðinni á Akureyri í gær. Skipulagið var g…
Um 400 manns, fólk 80 ára og eldra var bólusett í slökkvistöðinni á Akureyri í gær. Skipulagið var gott og gekk allt mjög vel. Mynd/Margrét Þóra.

„Þetta hefur allt gengið mjög vel, gott aðgengi og skipulagið er alveg til fyrirmyndar,” segir Inga Berglind Birgisdótir yfirhjúkrunarfræðingur á Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Alls bárust 720 skammtar af Pfizer bóluefni á Norðurlandið í upphafi vikunnar og var það nýtt til að bólusetja íbúa 80 ára og eldri. Bólusetning fór fram í húsakynnum Slökkviliðs Akureyrar og var fólk boðað í smáum hópum, alls voru 24 bólusettir í einu og að því loknu var næsti hópur boðaður í sæti.

Góð samvinna við viðbragðsaðila

Gert var ráð fyrir að fara langleiðina með að klára þann hóp með þeim skömmtum sem bárust. Alls er um að ræða um 900 manns í allt, en þegar var búið að bólusetja þann hluta hópsins sem býr á dvalarheimilum og eins hafði að sögn Ingu Berglindar einnig verið farið í heimahús til þeirra sem ekki áttu heimangengt. Um 400 manns voru bólusettir á slökkvistöðinni í gærdag.

Inga Berglind segir að góð samvinna hafi verið við viðbragðsaðila, lögreglu og slökkvilið sem lögðu fram lið sitt við bólusetninguna og þá hafi sjálfboðaliðar frá Rauða kossinum einnig verið að aðstoða fólkið sem koma og visa því veginn.

-mþþ


Nýjast