Alls hafa um tuttugu og átta þúsund manns undirritað áskorun þess efnis að Ólafur Ragnar Grímsson gefi kost á sér til áframhaldandi starfa sem forseti Íslands næsta kjörtímabil. Nú fer hver að verða síðastur að taka þátt þar sem undirskriftasöfnuninni líkur þriðjudaginn 14. febrúar og er fólk því hvatt til að undirrita áskorun til Ólafs Ragnars Grímssonar. Það er gert með því að fara inn á vefslóðina askoruntilforseta.is eða mbl.is og skrá nafn og kennitölu í viðeigandi reiti. Stuðningsmenn Ólafs Ragnars Grímssonar treysta engum manni betur til að standa vörð um hagsmuni lands og þjóðar á innlendum vettvangi og ekki síður erlendis við erfiðar aðstæður eins og nú ríkja. Um leið og við þökkum þær góðu undirtektir sem málið hefur fengið meðal landsmanna hvetjum við þá sem enn eiga eftir að skrifa undir áskorunina að gera það sem allra fyrst, segir í fréttatilkynningu.