Um 2600 nemendur að hefja nám í grunnskólum Akureyrar

Grunnskólastarf fyrir veturinn 2011-2012 fer senn að hefjast og hefst nám í grunnskólum landsins víðast hvar mánudaginn 22. ágúst. Um 2600 nemendur hefja nám við grunnskólana á Akureyri sem eru alls níu, þar á meðal eru skólarnir í Grímsey og Hrísey. Er þetta örlítil fjölgun á nemendum frá því í fyrra.

 

Um 260 nemendur eru að hefja nám í 1. bekk, þar af einn í Grímsey og þrír í Hrísey, og er það svipaður fjöldi og undanfarin ár. Lundarskóli er áfram fjölmennasti grunnskólinn með um 470 nemendur, en fámennastur er skólinn í Grímsey með tólf nemendur. Í Hrísey verða nemendurnir 23. Að sögn Gunnars Gíslasonar fræðslustjóra á Akureyri hefur gengið vel að manna kennarastöður við skólana.

 „Það er búið að ráða í allar stöður nema kannski eitthvað sem er tilfallandi vegna veikinda eða þess háttar. Það hafa verið fjölmargar umsóknir um hverja stöðu,“ segir Gunnar. Alls hefja 241 kennari störf við grunnskólana á Akureyri í vetur og segir Gunnar að allir hafi þeir réttindi. Skólarnir hafi verið nánast eingöngu með menntaða kennara sl. 2-3 ár, sem er gríðarleg breyting frá því sem var fyrir um 10-12 árum að sögn Gunnars.Samkvæmt þessu heyra því leiðbeinendur við kennarastörf í grunnskólum Akureyrar sögunni til.    

Nýjast