Um 220 skip hafa bókað komu sína til Akureyrar

Sigríður María Róbertsdóttir markaðsstjóri Hafnasamlags Norðurlands
Sigríður María Róbertsdóttir markaðsstjóri Hafnasamlags Norðurlands

„Það er óhætt að segja að skemmtiferðaskipaiðnaðurinn sé nánast búinn að ná sér efir gríðarlega niðursveiflu árin2020 til 2021á kórónuveirutímanum,“ segir Sigríður María Róbertsdóttir markaðsstjóri Hafnasamlags Norðurlands. Alls eru bókaðar tæplega 220 skipakomur til Akureyrar í ár, en mest verður um að vera á tímabilinu frá maí og fram í september. Fyrsta skipið er væntanlegt 1. apríl næstkomandi og það seinasta fer 11 október.

 Sigríður María segir að árið 2022 hafi verið tekið á móti 198 skipum og komu um 134 þúsund farþegar íhafnir Hafnasamlags Norðurlands, þ.e. á Akureyri, Hrísey og Grímsey, en það er rétt um 18 þúsund farþegum færra en var árið 2019. Hún segir hlutfall bókaðra farþega í skipin síðastliðið sumar hafa var ívið lægra í fyrra en tíðkast hefur, eða 68%. Almennt hefði bókunarhlutfallið verið í kringum 95%. „Helsta breytingin á samsetningu farþega síðastliðið ár var sú að lægra hlutfall farþega kom frá Evrópuþjóðum á meðan töluverð fjölgun var á farþegum frá Norður Ameríku,“ segir hún.  Ekki sé þess að vænta alveg strax að bókunarhlutfall komist á sama stað og fyrir kóvid, „en ef við reiknum með svipuðu bókunarhlutfalli og í fyrra þá gætum við átt von á um 190 þúsund farþegum til hafna Hafnasamlags Norðurlands í sumar.“

 Aukin tækifæri á smærri stöðum

 Útlit er fyrir að árið verði gott hjá  Hafnasamlagi Norðurlands varðandi komur skemmtiferðaskipa en bókaðar eru 218 komur til Akureyrar, 55 til Grímseyjar, 6 til Hríseyjar „og svo munum við taka á móti okkar fyrsta skipi á Hjalteyri sem er mjög spennandi,“ segir Sigríður María.   

„Farþegar leiðangursskipa eru almennt að leita eftir náttúrunni og kyrrðinni á íslandi og eru skipafélögin í auknum mæli farin að sækja í að stoppa frekar á minni stöðum, líkt og Hjalteyri. Ég tel þessa þróun mjög jákvæða þar sem hún mun leiða af sér aukna dreifingu um landið og aukin tækifæri í ferðaþjónustu fyrir smærri staði, sem hafa, í mörgum tilfellum ekki fengið sinn skerf af þeirri fjölgun ferðamanna sem orðið hefur á landinu síðastliðin ár.“ 

 Bæta við starfsfólki

Hún segir að mikill undirbúningur sé í gangi fyrir næsta sumar og muni Hafnasamlagið bæta við sig 8 til 10 starfsmönnum yfir sumarið en undanfarin hafi einnig verið að bætast við heilsársstarfsfólk. „Það er ljóst að aukinn skipafjöldi mun hafa mikil áhrif á þjónustuaðila á svæðinu sem eru í óða önn að skipuleggja sumarið til að þjónusta viðskipatvini sína sem best.

Sigríður María segir að gangi allt að óskum verði búið að reka niður stálþil á Torfunefi fyrir sumarið svo hægt verði að nýta bryggjuna til bráðabirgða, bæði fyrir minni skemmtiferðaskip og hvalaskoðunarskip. Lóðirnar verði boðnar út til uppbyggingar næsta vetur.“ Það er líka gaman að segja frá því að ný flotbryggja verður tekin í notkun fyrir sumarið í Grímsey

 

 


Athugasemdir

Nýjast